Síminn og breska fjarskiptafyrirtækið Daisy Communications hafa efnt til samstarfs um fjarskiptaþjónustu við viðskiptavini beggja félaga í Bretlandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum en dótturfyrirtæki Símans í Bretlandi, Aerofone UK, sem hefur sérhæft sig í farsímaþjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki, mun taka upp nýtt nafn og starfa undir vörumerkinu Daisy Mobile. Síminn og Daisy Communications munu eiga jafnan hlut í Daisy Mobile.

„Þetta samstarf er rökrétt framhald á þróun starfsemi okkar í Bretlandi. Síminn er leiðandi í tæknilausnum og þjónustu við viðskiptavini þegar kemur að fjarskiptum og upplýsingatækni hér á Íslandi.  Með samstarfinu við Daisy aukum við möguleika okkar á að koma fjarskiptalausnum okkar á framfæri hjá smáum og meðalstórum fyrirtækjum á Bretlandsmarkaði,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri  Símans í tilkynningunni.

Daisy Mobile verður undir stjórn Neil Gething, sem hefur mikla reynslu af rekstri fjarskiptafyrirtækja. Hann segir að þrátt fyrir nafnabreytinguna muni starfsemi og uppbygging Aerofone haldast óbreytt.

Daisy Communications var stofnað árið 2001. Þróun félagsins undanfarin ár hefur einkennst af miklum vexti en fyrirtækið þjónar um 35.000 viðskiptavinum. Aerofone UK, sem Síminn keypti árið 2007, þjónar um 10.000 viðskiptavinum á fyrirtækjamarkaði.