Stjórn Símans hefur samþykkt breytingu á skipulagi félagsins sem tekur gildi 1. febrúar næstkomandi. Breytingin felst í innleiðingu á nýju sviði, Markaðssviði sem mun hafa það hlutverk að festa Símann enn frekar í sessi sem markaðsdrifið þjónustufyrirtæki. Við nýju starfi framkvæmdastjóra Markaðssviðs tekur Petrea I. Guðmundsdóttir og mun hún samfara þessu starfi taka sæti í framkvæmdastjórn Símans, segir í fréttatilkynningu.

Á sama tíma hefur Anna Björk Bjarnadóttir verið ráðin framkvæmdastjóri Einstaklingsmarkaðar í stað Katrínar Olgu Jóhannesdóttur sem hefur þegar hafið störf sem framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs hjá Skiptum hf.

Ný framkvæmdastjórn Símans er þá í dag skipuð af Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Símans, Petreu I. Guðmundsdóttur, Önnu Björk Bjarnadóttur, Elíni Þórunni Eiríksdóttur, Sveini Tryggvasyni og Þór Jes Þórissyni.

Sævar segir í fréttatilkynningunni að mikil vinna hafi átt sér stað á undanförnum vikum við að skilgreina nýjar áherslur og skýra markmiðasetningu.“Markmið breytinganna er meðal annars til að styðja við sókn Símans inn á samliggjandi svið upplýsingatækni og afþreyingar. Síminn er í dag leiðandi á heimsvísu í gagnvirku sjónvarpi og hefur metnaðarfull markmið um frekari uppbyggingu á þeirri þjónustu.”

Sævar leggur einnig á það áherslu að hraðinn í samfélagi okkar í dag, hvort sem það er í einkalífi eða atvinnulífinu kallar á skjótar, einfaldar og þægilegar leiðir til samskipta og afþreyingar. “Hraði markaðar leggur aukna kröfu á starfsfólk Símans um að svara þessum þörfum á skjótan og skilvirkan hátt og það ætlum við okkur að gera hvort sem það er þjónusta við einstaklinga eða fyrirtæki”.

Síminn hefur á síðasta ári verið að efla þjónustu sína á sviði upplýsingatækni og því til stuðnings var Anza tekið inn til Símans á síðasta ári, ásamt því að Sensa ehf var keypt til að styðja við þjónustu Símans við fyrirtækjamarkað. “Síminn hefur sérstöðu á Íslandi að þjónusta fyrirtækjamarkað á einum stað bæði fjarskipta og upplýsingatækniog þá hæfni ætlum við okkur að nýta í ytri vexti á erlendum markaðssvæðum”, segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans.

Framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs

Anna Björk Bjarnadóttir er með meistaragráðu í stjórnun frá Wharton/TDC.  Síðasta árið hefur hún unnið sem stjórnunarráðgjafi hjá Capacent.  Áður vann Anna Björk m.a. sem forstöðumaður á Einstaklingssviði Símans og sem framkvæmdastjóri þjónustusviðs hjá TDC í Noregi.  Anna Björk er gift Tómasi A. Holton kennara og eiga þau tvö börn.

Framkvæmdastjóri Markaðssviðs

Petrea I. Guðmundsdóttir er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.  Síðasta árið hefur Petrea unnið sem forstöðumaður Markaðar hjá Símanum.  Áður vann hún m.a. sem framkvæmdastjóri Markaðssviðs á Skjánum og við ýmis sérfræðings- og stjórnunarstörfum hjá Símanum.  Petrea er í sambúð með Benedikt K. Magnússyni partner hjá KPMG og eiga þau eina dóttur.