Hluthafafundur Landssíma Íslands hf. (Símans) samþykkti í dag sameiningu Símans, Skipta ehf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. Á fundinum var samþykkt samrunaáætlun sem lögð var fyrir hluthafafund í öllum félögunum fyrr í þessum mánuði.

Í tilkynningu frá Símanum kemur fram að samruni Símans, Skipta og Íslenska sjónvarpsfélagsins undir nafni og kennitölu Símans gildir frá 30. júní síðastliðnum og gilda samþykktir Símans fyrir sameinað félag.

Á fundinum var samþykkt að veita stjórn félagsins heimild til að auka hlutafé um allt að 3.500.000.000 kr. að nafnverði með útgáfu nýrra hluta. Hluthafar falla frá forkaupsrétti að hlutunum. Gildir heimildin í 18 mánuði frá samþykkt hennar en stjórn félagsins annast nánari útfærslu á hlutafjáraukningunni.

Á fundinum voru einnig samþykktar breytingar á samþykktum Símans þess efnis að nafn félagsins verði Síminn hf. og hjáheiti verði Iceland Telecom. Einnig var samþykkt að rýmka tilgang félagsins þannig að hann taki ekki eingöngu til þjónustu á sviði fjarskipta- og upplýsingatækni.

Markmið samruna Skipta og Símans er að einfalda stjórnskipulag félaganna en Skipti er eignarhaldsfélag þeirra aðila sem keyptu hlut ríkisins í Símanum. Skjárinn verður áfram rekinn sem sjálfstæð afkomueining innan Símans líkt og aðrar einingar félagsins í samkeppnisrekstri. Skerpt verður á rekstri Símans með skipulagsbreytingum segir í tilkynningu félagsins.

Samkomulag varð á milli stjórna félaganna um mat á skiptihlutföllum við samrunann. Matið byggist á fyrirliggjandi efnahagsreikningum félaganna að teknu tilliti til matsbreytinga á ýmsum efnahagsliðum og ætlaðs hagræðis af samrunanum segir í tilkynningunni.

Hluthafar Skipta og Íslenska sjónvarpsfélagsins fá hluti í Símanum í stað hluta sinna.

Viðbótarhlutafé vegna hlutafjárhækkunar

Vegna hlutafjárhækkunar í tengslum við samrunann munu aðrir hluthafar í Símanum en Skipti fá viðbótarhlutafé í sameinuðu félagi. Skipti keyptu 98,88% hlut í Símanum í sumar á 66,7 milljarða króna eða 9,6 krónur á hlut. Aðrir hluthafar en Skipti áttu 1,12% hlut í félaginu fyrir sameiningu.

Eftir sameininguna og hlutafjárhækkun tengda henni eiga hluthafar í Skiptum 96,99% hlutafjár í Símanum. Aðrir sem áttu hluti í Símanum fyrir sameiningu eiga 2,45% hlutafjár í félaginu. Hluthafar í Íslenska sjónvarpsfélaginu, aðrir en Síminn, eiga nú 0,56% hlutafjár í sameinuðu félagi.