Heilsuverndarstöðin og Síminn hafa gert með sér samning sem kveður á um að Síminn sjái um alla fjarskipta- og upplýsingatækniþjónustu sem Heilsuverndarstöðin þarf á að halda í sínum rekstri.

Í fréttatilkynningu frá Símanum segir að samningurinn feli það í sér að Síminn annist og reki öflugt tölvu- og símakerfi fyrir Heilsuverndarstöðina. Auk þess mun Síminn veita aðra hefðbundna fjarskiptaþjónustu.

Í samningnum felst að öll fastlínu- og farsímaþjónusta verður í höndum Símans ásamt því að tryggð verður örugg gagnaflutningsleið frá Heilsuverndarstöðinni til annarra heilbrigðisstofnanna. Síminn verður einnig með internetþjónustu fyrir Heilsuverndarstöðina.

„Síminn hefur ávallt verið traustur samstarfsaðili og það einfaldar allan okkar daglegan rekstur að geta leitað til sama þjónustuaðila með fjarskipta- og upplýsingatækniþjónustu,“ segir Hörður Hilmarsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndarstöðvarinnar í fréttatilkynningunni. Með þessum samningi færir Heilsuverndarstöðin þennan rekstrarþátt á einn stað í stað þess að vera með hann hjá fleiri þjónustuveitum. Hörður segist þess fullviss að það muni skila sér í betri framlegð og nýtingu starfsmanna stöðvarinnar sem þurfi einungis að leita á einn stað með aðstoð við tæknimálin.

Elín Þórunn Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs Símans kveðst afar ánægð með þennan samning og það traust sem Heilsuverndarstöðin leggur á herðar Símans.

Samkvæmt upplýsingum frá Símanum byggir fyrirtækið starfsemi sína á fólki sem hefur áralanga og víðtæka þekkingu á rekstri fjarskipta- og upplýsingatæknikerfa.

Síminn hefur síðustu misseri fært sig nær upplýsingatækninni og býður fyrirtækjum í dag ekki bara alla fjarskiptaþjónustu heldur utanumhald á rekstri og hýsingu upplýsingatæknikerfa þeirra ásamt aðgangi að öflugu þjónustuborði og þjónustuvef þar sem starfsfólk viðskiptavina geta beint fyrirspurnum sínum