Síminn og Gagnaveita Reykjavíkur (GR) rituðu undir samkomulag í morgun þess efnis að Síminn leigi aðgang að ljósleiðarakerfi GR. Þannig mun Síminn í framtíðinni geta aukið þjónustu til viðskiptavina sinna yfir ljósleiðaranet GR. Hjá báðum aðilum er vinna hafin við tæknilegan undirbúning og stefnt verður að því að þjónusta Símans verði aðgengileg á ljósleiðara GR snemma á næsta ári.

„Við fögnum því að hafa  náð þessum samningi við GR. Með honum fjölgum við mögulegum aðgangsleiðum neytenda á suðvesturhorninu að fjölbreyttri þjónustu Símans. Hið víðfeðma ljósleiðaranet GR er það stærsta sinnar tegundar á Íslandi og hefur verið það eina sem við höfum ekki nýtt til að sinna viðskiptavinum okkar með beinum hætti. Nú breytist það blessunarlega,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

„Við fögnum því að fá þjónustur Símans á ljósleiðarakerfi GR sem mun ná til 107 þúsund heimila í lok árs og um leið aukum við val neytenda. Ísland er mjög framarlega í notkun á ljósleiðara og þessi samningur mun styðja enn frekar við stefnu stjórnvalda um nýtingu hans,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.