Hlutabréfaverð Símans hélt áfram að lækka í Kauphöllinni í dag en gengi bréfa félagsins lækkaði um 6,7% í 352 milljóna króna viðskiptum. Í gær lækkaði hlutabréfaverð félagsins um rúm 8% í kjölfar beiðni Samkeppniseftirlitið eftir frekari sjónarmiðum vegna kaupa Ardian á Mílu. Í kjölfarið lækkaði hlutabréfaverð félagsins um rúm 8%.

Sjá einnig: Síminn lækkar um 8% eftir tilkynningu frá SKE

Úrvalsvísitalan stóð í stað í Kauphöllinni í dag en heildarvelta á markaðinum nam 3,1 milljarði króna. Af 22 skráðum félögum á aðalmarkaði voru 13 rauð eftir viðskipti dagsins en sex græn.

Þá hækkaði hlutabréfaverð Brim mest í dag eða um tæp 5% í 66 milljóna króna viðskiptum. Gengið stendur nú í 96 krónum á hlut og hefur hækkað um 6,1% á síðastliðnum mánuði. Þar á eftir fylgdi Síldarvinnslan sem hækkaði um 2,4% í 88 milljóna króna viðskiptum.

Mest viðskipt voru með hlutabréf Arion banka en heildavelta með bréf félagsins nam 585 milljónum en gengi bréfa félagsins lækkaði um 0,6% í dag.