Frá og með 6. júní mun Síminn lækka verð á símtölum í farsímanet Nova úr 28kr. í 27,50kr.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

Þar segir að forsendan fyrir þessari lækkun er sú að Nova hefur lækkað samtengigjald sitt til Símans um 50 aura eða úr 12,50kr. í 12kr

„Síminn fagnar þessari lækkun og vill skila henni sem fyrst til viðskiptavina sinna. Í dag er verðskráin fyrir að hringja í farsímanet Nova nokkru hærri en til annarra fjarskiptafélaga. Ástæðan fyrir þessum mun er sú að það samtengigjald sem Nova krefur Símann um er í dag 60% hærra en það samtengigjald sem Síminn krefur Nova um,“ segir í tilkynningu Símans.

Síminn segir að í dag er það samtengigjald sem Nova krefur Símann um 12kr. á mínútuna fyrir símtöl sem enda í kerfi Nova.

„Síminn krefst hins vegar gjalds sem nemur 7,49 kr á mínútuna fyrir símtöl frá Nova sem enda í farsímaneti Símans. Það gjald er í samræmi við ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir í tilkynningunni að Síminn vonist til þess sjá megi frekari lækkun á samtengigjöldum Nova í náinni framtíð „sem mun skila sér í lægri verðskrá til viðskiptavina Símans sem hringja í farsímanet Nova,“ segir í tilkynningunni.