Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur ákveðið að leggja lögbann á að Síminn veiti aðgang að tilteknum vefsíðum. Er það gert með vísan til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í öðru máli. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Símanum.

Í ákvörðun sýslumanns felst að Síminn loki á aðgang að sex slóðum að tveimur netsíðum sem bjóða höfundavarið efni án leyfis efniseigenda. Þetta eru annars vegar slóðir að síðunni Deildu og hins vegar að The Pirate Bay. Lögbannið setur sýslumaður að kröfu STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar.

Síminn mun loka fyrir aðgang að umræddum vefsíðum á morgun, fimmtudaginn 6. nóvember. Slóðirnar eru eftirfarandi: www.deildu.net, www.deildu.com. www.iceland.pm, www.thepiratebav.se. www.thepiratebav.sx og www.thepiratebav.org.