*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 26. janúar 2017 14:31

Síminn með hraðasta farsímanetið

Síminn er með hraðasta farsímanetið hér á landi samkvæmt mælingum Ookla Speedtest.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Síminn er með hraðasta farsímanetið hér á landi. Ookla Speedtest krýnir Símann sigurvegara ársins 2016 þegar kemur að hraða á farsímanetum hér á landi. Meðalhraðinn mældist 44,13 Mb/s á farsímanetum Símans um allt land. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir starfsmenn stolta af niðurstöðunni sem sýni árangur uppbyggingar farsímanetsins hjá Símanum.

„4G net Símans nær til 95,5% landsmanna með hraða eins og hann gerist bestur. Þá nær 3G netið, sem við höfum eflt samhliða 4G uppbyggingunni, til yfir 99% landsmanna,“ er haft eftir henni..

„Við erum hvergi nærri hætt uppbyggingunni því í nóvember tókum við í notkun næstu kynslóð 4G senda –  LTE Advanced eða 4G+, sem ná yfir 200 Mb/s hraða. Þá ætlum við bæði að fjölga sendum og efla í ár, í samstarfi við Ericsson, svo viðskiptavinir okkar verði áfram á hraðasta farsímaneti landsins,“ tekur hún einnig fram.

Hraðinn á farsímanetum deilist milli notenda. Því getur niðurstaðan verið misjöfn eftir stund og stað. „Hraðamæling Ookla gefur góðar vísbendingar um upplifun viðskiptavina. Meðalhraðinn 2016 hjá Símanum mældist yfir 44 Mb/s, en sem dæmi náðist yfir 200 Mb/s á farsíma í Vesturbæ Reykjavíkur þann 7. janúar.“

„Ookla Speedtest mælir hraða farsímakerfa um allan heim í yfir fimm milljónum prófana á dag og notast við meðalhraða mælinga úr nýjum snjalltækjum,“ segir að lokum í fréttatilkynningunni.