Samkvæmt nýlegri greiningu Capacent á íslenska fjarskiptamarkaðnum er efnahagsreikningur Símans of stór til að fyrirtækið geti skilað ásættanlegri ávöxtun.

Síminn er með langstærsta efnahaginn af stóru fjarskiptafyrirtækjunum þremur, en heildareignir félagsins námu 62 milljörðum króna í árslok 2015. Þar af voru rúmir 34 milljarðar króna í viðskiptavild og öðrum óefnislegum eignum. Eignir Fjarskipta (Vodafone) voru um 15,5 ma.kr. á sama tíma og eignir Nova um 5 ma.kr.

„Þeir munu ekki með neinum hætti ná að ávaxta allan þennan bunka af peningum sem er fastur á efnahagsreikningnum, það er afar erfitt. Þeir þurfa að finna einhverja leið, jafnvel afskrifa allar þessar óefnislegu eignir. Þeir eru í svakalega erfiðri stöðu út af þessum stóra efnahagsreikningi,“ segir Hrannar Hólm hjá greiningardeild Capacent í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þessi óefnislega eign er ekki í neinni vinnu, hún er bara þarna. Þá þarftu einhvern veginn að búa til peninga til að ávaxta þessa óefnislegu eign og það er svakalega erfitt. Síminn er í erfiðri stöðu því þeir eru með svo stóran efnahagsreikning og þeir eru gamalt félag sem ekki er byggt upp svona nýtt og hreyfanlegt eins og Nova.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .