Síminn og Alcan á Íslandi hafa undirritað þriggja ára þjónustusamning sem nær yfir farsíma-, talsíma og internetþjónustu ásamt fjarvinnutengingum til starfsmanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

Þá kemur fram að starfsmenn Símans hafa á síðustu mánuðum unnið með starfsfólki Alcan á Íslandi að því að greina þarfir félagsins í fjarskiptum.

„Í kjölfarið gerði Síminn Alcan á Íslandi tilboð sem þykir hagstætt fyrir báða aðila,“ segir í tilkynningunni.

Elín Þórunn Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs Símans segist í tilkynningunni afar ánægð með þá vinnu sem starfsfólk Símans og Alcan á Íslandi unnu við þarfagreininguna í fjarskiptunum.

„Það er mjög mikilvægt að þekkja vel hvernig fyrirtæki nýta fjarskiptaþjónustu í sinni starfsemi. Með því er hægt að bjóða lausnir sem auka hagræði í rekstrinum ásamt því að efla samskiptaleiðir starfsmanna og sveigjanleika með þeim þjónustumöguleikum sem fjarskiptatæknin býður upp á í dag,“ segir Elín Þórunn.

Gaukur Garðarsson, framkvæmdastjóri Viðhaldssviðs hjá Alcan á Íslandi segir einnig í tilkynningunni að samningurinn hafi mikla þýðingu fyrir starfsemi fyrirtækisins.

„Við hjá Alcan á Íslandi vinnum eftir mjög skýrum öryggisstöðlum og leggjum mikla áherslu á að allir okkar birgjar séu traust og áreiðanleg fyrirtæki. Síminn hefur þjónustað Alcan á Íslandi undanfarin ár með miklum ágætum. Tilboð Símans var okkur hagstætt og undirstrikar þessi samningur einnig gott samstarf félaganna til framtíðar,“ segir Gaukur.