Síminn hefur gert samning við sænska símafyrirtækið Ericsson um að efla dreifikerfi Símans upp í allt að 900MHz.

Frá þessu er greint á vef MarketWatch en þar kemur fram að öflugra dreifkerfi mun gera Símanum auðveldara um vik að efla farsímakerfi sitt og þjónustu hér á landi.

Samningurinn er til tveggja ára en samkvæmt honum mun Ericsson útvega Símanum bæði tæki og þá þjónustu sem til þarf til að efla dreifikerfið. Þar má nefna WCDMA/HSPA útvarpssenda og GSM/WCDMA hugbúnaðarkerfi sem eykur móttöku- og dreifiskilyrði samkvæmt því er fram kemur á MarketWatch.

Þá mun Ericsson einnig sinna uppfæringum og uppsetningum á kerfinu auk þess að þjónustu kerfið á samningstímabilinu.

Þá er greint frá því að Síminn mun þannig verða einn af þeim fyrstu í heiminum til að keyra WCDMA kerfi á 900MHz rásum.

„Það er mikil samkeppni á Íslandi og við þurfum sterkan og áreiðanlegan aðila til að byggja kerfið upp og tryggja velgengni okkar,“ hefur MarketWatch eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Símans.

Hann segir jafnframt að samningurinn við Ericsson færi Símanum tækifæri til að mæta auknum kröfum viðskiptavina um fjölbreyttari farsímaþjónustu.