Landsvirkjun, Fjarski og Síminn hafa gert með sér samning um samvinnu á sviði fjarskiptaþjónustu. Samstarfið felur í sér að Síminn veitir Landsvirkjun og Fjarska þá fjarskiptaþjónustu sem nauðsynleg er til að tryggja öryggi og skilvirkni í rekstri Landsvirkjunar

Samningur var einnig gerður á milli Fjarska og Símans um kaup hins síðarnefnda á sex pörum í ljósleiðarastreng Fjarska sem liggur á milli Hrauneyjafossstöðvar og Akureyrar. Samningurinn felur jafnframt í sér kaup Símans á fjórðungi hlutafjár í Fjarska.

Markmið fyrirtækjanna er m.a. að samnýta fjárfrekan fjarskiptabúnað víðs vegar um landið. Vonast er til að samlegðaráhrif skili sér í betri þjónustu við orkuiðnaðinn í landinu.

Unnið hefur verið að því um nokkurt skeið að marka fjarskiptafyrirtækinu Fjarska ehf., sem var að fullu í eigu Landsvirkjunar, stefnu til framtíðar. Samþykkt hefur verið að fyrirtækið einbeiti sér að því að eiga, reka og leigja Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum aðgang að flutningskerfi Fjarska.

"Síminn hefur öfluga starfsemi um allt land og með samstarfi af þessu tagi geta fyrirtækin sameinast um uppbyggingu á fjarskiptaþjónustu fyrir orkuiðnaðinn," segir í frétt á heimasíðu Landsvirkjunar.