Síminn og Orkuveita Reykjavíkur hafa um nokkurt skeið átt í viðræðum um samnýtingu á grunnnetum fyrirtækjanna, segir í sameiginlegri tilkynningu.

Verið er að skoða hvort mögulegt verði að leita samlegðaráhrifa við rekstur netanna tveggja til hagsbóta fyrir viðskiptavini, segir í tilkynningunni.

Orkuveitan hefur gert samninga við fjögur sveitarfélög um ljósleiðaravæðingu heimila. Þau eru Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær, Akraneskaupstaður og Hveragerðisbær.

Orkuveitan rekur ljósleiðarakerfi til fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Ljósleiðaranet Símans nær um allt land. Það er 4.500 kílómetrar að lengd og hefur uppbygging þess tekið 20 ár.

Öll heimili landsins tengjast netinu á einhvern hátt og um 40.000 heimili hafa aðgang að þjónustu á ljósleiðaraneti Símans á höfuðborgarsvæðinu, annaðhvort með hreinum ljósleiðara í hús eða í gegnum Breiðband Símans.

Frekari upplýsingar er ekki mögulegt að veita um viðræðurnar að svo stöddu, segir í tilkynningunni.