Síminn og Öryggismiðstöðin hafa gert með sér samning um samstarf þar sem áhersla er á samnýtingu lausna frá hvorum aðila um sig. Í tilkynningu Símans kemur fram að Síminn leggur til lausnir á sviði fjarskipta og upplýsingatækni og Öryggismiðstöðin leggur til lausnir á sviði öryggisvöktunar.

Bjóðast viðskiptavinum Internetþjónustu Símans og Öryggismiðstöðvarinnar sérstök kjör á þjónustu fyrirtækjanna í tilboði sem gildir til 31. mars næstkomandi.

Síminn hefur lagt nýjar áherslur í starfi sínu á þessu ári með frekari samþættingu lausna á einstaklingsmarkaði. Síminn er ekki lengur símafyrirtæki heldur fyrirtæki sem er í sjónvarpsrekstri, fjarskiptum og afþreyingu og nýtir til þess upplýsinga- og fjarskiptatækni.

"Samningurinn er í takt við nýjar áherslur sem Síminn hefur lagt með stafrænni tilveru á einstaklingsmarkaði. Sjálfvirkni og fjargæsla heimila opna nýjar víddir fyrir almenning. Þannig er hluti af stafrænni tilveru einstaklinga að geta fylgst með heimilum sínum, sumarbústöðum og öðru með öryggismyndavélum sem tengdar væru við tölvur þeirra eða farsíma," segir Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Símans.

Öryggismiðstöðin er alhliða öryggisfyrirtæki sem rekur sína eigin stjórnstöð sem er starfrækt 24 tíma sólarhringsins allt árið um kring. Öryggismiðstöðin selur, setur upp og sér um viðhald á öllum öryggislausnum sem bjóðast, m.a. þjófavarnarbúnað, eldvarnarbúnað, aðgangsstýringar, myndavélakerfi, þjófavarnarhlið og fleira.

"Með samningnum hafa þessi tvö öflugu þjónustufyrirtæki tekið höndum saman um samvinnu í sölu og þróunarmálum fyrir síma- og öryggislausnir. Fyrsta skrefið í því samstarfi er sameiginleg kynning á lausnum fyrirtækjanna til heimila. Í framhaldi þess má gera ráð fyrir að samstarfið leiði af sér fleiri spennandi möguleika fyrir jafnt heimili sem fyrirtæki. Það er ljóst að vegur fjarskipta- og öryggisfyrirtækja liggur saman á mörgum sviðum og undirskrift samningsins í dag staðfestir það," segir Jón Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Öryggismiðstöðvarinnar í tilkynningunni.

Öryggismiðstöðin og Síminn munu bjóða viðskiptavinum sínum mjög hagstæð tilboð í internetþjónustu, heimavarnir, stafrænt sjónvarp um ADSL og fleira.