Síminn og Penninn hafa undirritað samning um víðtækt sölusamstarf þar sem Penninn verður einn af endursöluaðilum Símans. Í frétt félaganna kemur fram að samstarfið felur í sér að verslanir Pennans víða um land munu bjóða vörur og þjónustu Símans en þjónustuframboð Símans fellur vel að stefnu Pennans um breiðara vöru- og þjónustuúrval. Samningurinn nær í fyrstu til verslana Pennans í Reykjanesbæ og á Akranesi og verslunar TRS-Pennans á Selfossi.

Kristinn Vilbergsson, forstjóri Pennans, segist í tilkynningunni vera afar ánægður með samstarfssamninginn. ?Það er mikil viðurkenning fyrir verslunarrekstur okkar að jafn stórt fyrirtæki og Síminn er sækist eftir samstarfi. Það hefur verið stefna Pennans að breikka vöruúrval og auka þjónustu við viðskiptavini. Þetta samstarf er í samræmi við þá stefnu og fellur auk þess vel að þeirri þjónustu sem við bjóðum í dag. Við munum leggja mikinn metnað í að viðhalda og vonandi bæta þjónustu Símans,? segir Kristinn.

Penninn mun bráðlega taka við starfsemi Símans í Reykjanesbæ og á Akranesi en þegar hefur verið ákveðið að TRS-Penninn taki við starfsemi Símans á Selfossi 1. mars. Viðskiptastjórar á fyrirtækjasviði Símans á Akranesi, Selfossi og í Reykjanesbæ munu áfram sinna þjónustu við fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Símann.

?Samningurinn við Pennann er í samræmi við þá stefnu Símans að færa hluta af verkefnum til endursöluaðila og verktaka sem stuðlar að sterkari innviðum viðkomandi byggðarlags. Síminn mun áfram þróa samstarf við endursöluaðila sína með aukinni fræðslu, sýnileika og þjónustu sem kemur sameiginlegum viðskiptavinum aðilanna til góða,? segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans í tilkynningunni. Til að efla enn frekar þjónustu við viðskiptavini hafa verið tekin skref til að auka sjálfvirkni á Þjónustuvef Símans og er hann um þessar mundir að fara í loftið í nýrri og endurbættri útgáfu.

Penninn er verslunarfyrirtæki sem þjónar bæði fyrirtækjum og einstaklingum með það að leiðarljósi að viðskiptavinir geti ætíð gengið að þægilegri og fjölbreyttri þjónustu í samræmi við þarfir hvers og eins. Vöruframboð Pennans er á sviði skrifstofuvara og afþreyingar, s.s. bóka, tímarita, myndbanda og geisladiska. Penninn rekur 14 eigin verslanir um allt land og eina húsgagnaverslun. Auk þess er Penninn í samstarfi við fjórar verslanir úti á landi, svokallaða Pennavini.