*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 16. febrúar 2018 17:04

Síminn og TM hækkuðu mest

Tvö félög hækkuðu um meira en 3% í viðskiptum dagsins en annað þeirra skilaði uppgjöri eftir lokun markaða.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala Nasdaq Iceland hækkaði um 1,18% í 4,8 milljarða viðskiptum dagsins og fór hún upp í 1.776,87 stig. Aðalvísitala Skuldabréfa lækkaði hins vegar um 0,01% í tæplega 2,6 milljarða viðskiptum og var lokagengi hennar 1.363,79 stig.

Mest hækkun var á gengi bréfa Símans, eða um 3,22% í tæplega 536 milljón króna viðskiptum og fóru verðið upp í 4,17 krónur hvert bréf.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa TM, eða um 3,16% í 122 milljón króna viðskiptum. Fór gengi bréfanna upp í 34,25 krónur en eins og Viðskiptablaðið greindi frá birti félagið afkomu ársins 2017 í dag þar sem fram kom að það hefði hagnast um 3,1 milljarð og um helmingur þess færi í arðgreiðslur.

Mest viðskipti voru hins vegar með bréf Marel, eða fyrir 2,5 milljarða, og hækkuðu bréfin upp um 1,66% í 367,50 krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa HB Granda, sem fóru niður um 1,46% í 69 milljón króna viðskiptum. Nam gengi bréfanna í lok viðskiptadags 33,80 krónum.