*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 2. desember 2020 10:00

Síminn selur Sensa fyrir 3,3 milljarða

Norskt félag með starfstöðvar í 35 löndum kaupir dótturfélag Símans. Söluhagnaðurinn 1,7 milljarðar.

Ritstjórn
Orri Hauksson er forstjóri Símans sem selt hefur dótturfélagið Sensa.
Haraldur Guðjónsson

Norska félagið Crayon Group hefur keypt dótturfélag Símans, Sensa, á 3.250 milljónir íslenskra króna, en tveir þriðju verða greiddir með reiðufé en einn þriðji með hlutabréfum í Crayon Group Holding AS, bundnum til 12 mánaða, þannig að tólfti hluti þeirra er laus til sölu á hverjum mánuði.

Síminn áætlar að söluhagnaðurinn af sölunni nemi 1,7 milljarði króna, en áætlað uppgjör viðskiptanna mun eiga sér stað í lok febrúar 2021 að uppfylltum skilyrðum m.a. um samþykki Samkeppniseftirlitsins. EBITDA Sensa hefur verið í kringum 4% af heildar EBITDA samstæðu Símans.

Sensa sinnir rekstri, hýsingu og skýjalausnum til sérfræðiþjónustu og ráðgjafar auk þess að hafa byggt upp hagnýtingu Microsoftlausna. Hjá félaginu starfa 115 starfsmenn, þar af vinna 91 við ráðgjöf og upplýsingatækni.

Félagið mun halda sinni starfsemi áfram undir eigin merkjum og Síminn verður áfram einn af lykilviðskiptavinum félagsins auk þess sem Síminn og Crayon leggja drög að samstarfi félaganna.

Norskt félag með 1.700 starfsmenn í 35 löndum

Crayon er með höfuðstöðvar í Ósló og hafa hlutabréf móðurfélags félagsins Crayon Group Holding verið tekin til viðskipta hjá kauphöllinni í Ósló. Hjá fyrirtækinu starfa um 1.700 manns en fyrirtækið er með 55 starfsstöðvar í 35 löndum, í Evrópu, Norður-Ameríku, Eyjaálfu og Asíu.

Félagið sinnir eignastýringu hugbúnaðar, skýja- og hugbúnaðarleyfissamningum og tengdri ráðgjafarþjónustu og eru mörg af stærstu fyrirtækjum heims viðskiptavinir fyrirtækisins. Crayon er einn þriggja helstu endursöluaðila hýsingarleyfa fyrir Microsoft í heiminum. Árið 2019 var Crayon valið af Microsoft sem samstarfsaðili ársins við þróun gervigreindar og vélanáms (e. machine learning).

„Sensa er geysisterkt fyrirtæki á sínu sviði, sem við sjáum eftir úr samstæðunni. Með breytingunni fær félagið hins vegar náttúrulegra heimili en fyrr, í samstæðu Crayon sem snýst eingöngu um upplýsingatækniþjónustu til fyrirtækja. Við hyggjumst áfram vinna náið með okkar góðu félögum í Sensa, en ekki síður með Crayon í heild, sem býður upp á fjölbreytt vöruframboð og þjónustu víða um heim,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

„Krafta Crayon viljum við nýta til að lækka kostnað Símans sjálfs af upplýsingatækni og hugbúnaðarleyfum, en mestu skiptir að fyrirtækjaþjónusta Símans mun í samstarfi við Crayon geta veitt íslenskum fyrirtækjum af öllum stærðum heilsteyptari þjónustu en fyrr, það er upplýsingatækni og fjarskipti í einum pakka. Síminn mun með sölu á Sensa þannig fara út úr eignarhaldi á sérhæfðu upplýsingatæknifyrirtæki, en samstarf við Crayon samstæðuna í heild eftir söluna opnar ný tækifæri.“

Torgrim Takle, framkvæmdastjóri Crayon segist hlakka til að fá Sensa til liðs við Crayon Group vegna vaxtarmöguleikanna sem það hafi í för með sér fyrir fyrirtækið.“

„Markmið Sensa hefur verið að færa viðskiptavinum sínum virðisaukandi þjónustu og þróa lausnir sem passa inn í krefjandi tækniumhverfi. Sensa hefur alltaf lagt áherslu á að byggja upp sterk og áreiðanleg sambönd við viðskiptavini og samstarfsaðila,“ segir Torgrim.

„Þessi sýn samræmist vel grundvallargildi Crayons sem er að byggja upp sterkt og áreiðanlegt samband við viðskiptavini sína til að geta stutt þá við lausn á lykiláskorunum með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.“

Valgerður Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa segist hlakka mjög til samstarfsins við nýju eigendurna.

„Þetta er gífurleg viðurkenning á þekkingu og hæfni Sensa í upplýsingatæknilausnum og opnar tækifæri fyrir þann góða hóp sem vinnur hér að vaxa út í alþjóðlegt umhverfi og styrkja þannig stöðu upplýsingatækni á Ísland,“ segir Valgerður.

„Hið nýja eignarhald breikkar það lausnaframboð sem Sensa getur boðið íslenskum viðskiptavinum sínum og gerir Sensa kleift að styðja enn betur við stafræna vegferð þeirra. Við þökkum Símanum fyrir frábær ár saman og erum spennt fyrir áframhaldandi góðu samstarfi.“