„Núna munu allir starfsmenn, sem eru yfir 500 talsins, fara í próf í samkeppnisrétti og ef einhver fellur á prófinu þá þarf hann að fara aftur á námskeið,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans.

Síminn gerði í fyrra sátt við Samkeppniseftirlitið sem tengdist uppgjöri á málum allt aftur til ársins 2001 en Síminn hefur undanfarin ár þurft að greiða hundruð milljóna króna í sektir vegna brota á samkeppnislögum. „Í aðdraganda þessarar sáttar og í kjölfarið höfum við verið að innleiða svokallaða samkeppnisréttaráætlun,“ segir Sævar. Einn liður í því er að hver einasti starfsmaður er búinn að fara á námskeið í samkeppnisrétti.

Námskeiðið hefur verið aðlagað að hlutverki hvers og eins starfsmanns innan fyrirtækisins. Það hafi því verið misjafnlega umfangsmikið og tekið frá einum og hálfum klukkutíma og upp í tvo og hálfan. Þeir sem hafi sótt lengsta námskeiðið hafi til dæmis verið vörustjórar, sem taki ákvarðanir um verðlagningu, og viðskiptastjórar, sem sjái um samninga við viðskiptavini á fyrirtækjamarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .