Nú býðst viðskiptavinum Símans á Djúpavogi og Búðardal aðgangur að ADSL þjónustu Símans. ADSL er nú í boði í langflestum bæjum á Íslandi eða á öllum stöðum með yfir 500 íbúum.

Undirbúningur að uppsetningu á ADSL er hafin á nokkrum öðrum stöðum með innan við 500 íbúa. Það eru staðir eins og Suðureyri, Flateyri, og Flúðir. Háhraðatengingar Símans, sem engin útbreiðslukvöð ríkir um, þ.e. ADSL og breiðband, ná nú til um 92% heimila á landinu. Sú tala er afar há á alþjóðlegan mælikvarða, ekki síst þegar litið er til stærðar landsins og fámennis. Til samanburðar má nefna að ADSL nær til 80% heimila í Bretlandi, Svíþjóð og Noregi segir í tilkynningu Símans.

Fyrirhuguð dreifing Símans á stafrænu sjónvarpsefni um ADSL kerfi Símans eykur möguleika á nýtingu á fjarskiptakerfunum. Aukin nýting eykur aftur möguleika á því að hagkvæmt verði að efla ADSL dreifikerfi fyrirtækisins enn frekar. Með betri nýtingu á kerfunum hefur Síminn ákveðið að ganga ennþá lengra við útbreiðslu háhraðatenginga.

Sjónvarpsþjónusta Símans mun þannig létta undir við að auka útbreiðslu háhraðanetsins. Síminn stefnir að því að geta ADSL-vætt 95% heimila með hagkvæmum hætti, eftir að gagnvirku sjónvarpi hefur verið hrundið af stokkunum. Landsbyggðin mun njóta góðs af en í fyrsta áfanga við dreifingu stafræns sjónvarps yfir ADSL verða staðir eins og Bolungarvík, Patreksfjörður, Fáskrúðsfjörður, Stykkishólmur, Ólafsvík, Ólafsfjörður, Grundarfjörður, Vopnafjörður, Hvammstangi og Djúpivogur