Hagnaður samstæðu Landssíma Íslands hf. fyrstu sex mánuði ársins 2004 var tæpar 1.225 m.kr. Hagnaður samstæðunnar fyrir sama tímabil í fyrra var 977 m.kr. Rekstrartekjur aukast um 667 m.kr. og rekstrargjöld hækka um 583 m.kr. miðað við sama tímabil árið 2003. Arðsemi eigin fjár hækkar á milli ára úr 13% í 16%. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) er 3.546 m.kr. eða 37% en var 3.461 m.kr. eða 38% fyrir sama tímabil fyrra árs. Rekstrarhagnaður tímabilsins (EBIT) nam 1.678 m.kr. samanborið við 1.241 m.kr. fyrir sama tímabil árið áður.

Rekstrartekjur samstæðunnar á tímabilinu voru 9.703 m.kr. samanborið við 9.035 m.kr. á sama tímabili árið áður, sem er rúmlega 7% aukning. Fjarskiptamarkaðurinn fer stækkandi en það mælist meðal annars í aukinni umferð um fjarskiptakerfi Símans, sérstaklega hvað varðar GSM og gagnaflutninga en á móti hefur umferð um fastlínukerfi minnkað. Vegna harðnandi verðsamkeppni í farsíma og gagnaflutningum hefur verð til viðskiptavina Símans lækkað. Á tímabilinu seldi Síminn rekstur flug- og skipaþjónustu til Flugfjarskipta ehf. og nam söluhagnaðurinn 150 m.kr. Salan mun hafa óveruleg áhrif á rekstur félagsins í framtíðinni segir í tilkynningu félagsins.

Rekstrargjöld samstæðunnar á tímabilinu voru 6.157 m.kr. samanborið við 5.574 m.kr. á sama tímabili fyrra árs. Fjarskiptakostnaður og þjónusta hækka um 447 m.kr. en hækkunin er að mestu leyti vegna leigu á sæstrengjum og aukinnar notkunar áskrifenda Símans erlendis. Á móti lækka afskriftir tímabilsins vegna sölu á sæstrengjum á fyrra ári. Á tímabilinu var greiddur kaupauki til starfsmanna félagsins að fjárhæð 130 m.kr.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 3.546 m.kr. á tímabilinu. Afskriftir félagsins á tímabilinu voru 1.868 m.kr. en námu 2.220 m.kr. á sama tímabili í fyrra og hafa lækkað um 16% Rekstrarhagnaður tímabilsins (EBIT) hækkar um 35% og nam 1.678 m.kr. samanborið við 1.241 m.kr. fyrir sama tímabil árið áður.

Veltufé frá rekstri var 3.141 m.kr. samanborið við 3.325 m.kr. árið áður.
Fjárfestingar samstæðunnar

Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum (CAPEX) námu 1.237 m.kr. á tímabilinu. Fjárfestingar í félögum námu 452 m.kr. þar af nam fjárfesting í Carrera Global Investment Ltd. 348 m.kr. Arðsemi eigin fjár hækkaði á tímabilinu úr 12,8% í 16,1%. Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir samstæðunnar 26.716 m.kr. og eigið fé 15.172 m.kr. í lok júní 2004. Greiddur arður á tímabilinu nam 2.111 m.kr. Hlutafé félagsins í lok júní 2004 nam 7.036 m.kr. og samkvæmt hluthafaskrá eru skráðir hluthafar 1.253. Um 99% hlutafjár er í eigu ríkissjóðs.
Framtíðarhorfur í rekstri Símans eru góðar. Félagið hefur sterka fjárhagsstöðu og góða markaðsstöðu á fjarskiptamarkaði í örum vexti.