Hagnaður samstæðu Landssíma Íslands hf. fyrstu níu mánuði ársins 2004 var rúmar 2.443 m.kr. Hagnaður samstæðunnar fyrir sama tímabil í fyrra var 1.615 m.kr. Rekstrartekjur aukast um 1.107 m.kr. og rekstrargjöld hækka um 870 m.kr. miðað við sama tímabil árið 2003. Arðsemi eigin fjár hækkar á milli ára úr 15% í 22%. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) er 5.728 m.kr. eða 39% en var 5.491 m.kr. eða 40% fyrir sama tímabil fyrra árs. Rekstrarhagnaður tímabilsins (EBIT) nam 3.006 m.kr. samanborið við 2.187 m.kr. fyrir sama tímabil árið áður.

Rekstrartekjur samstæðunnar á tímabilinu voru 14.830 m.kr. samanborið við 13.723 m.kr. á sama tímabili árið áður, sem er rúmlega 8% aukning. Mikil samkeppni hefur einkennt fjarskiptamarkaðinn það sem af er árinu en hann fer jafnframt stækkandi. Stækkunin mælist meðal annars í aukinni umferð um helstu fjarskiptakerfi Símans, sérstaklega hvað varðar GSM og gagnaflutninga. Á tímabilinu seldi Síminn rekstur flug- og skipaþjónustu til Flugfjarskipta ehf. og nam söluhagnaðurinn 150 m.kr. Salan mun hafa óveruleg áhrif á rekstur félagsins í framtíðinni.

Rekstrargjöld samstæðunnar á tímabilinu voru 9.102 m.kr. samanborið við 8.232 m.kr. á sama tímabili fyrra árs. Fjarskiptakostnaður og þjónusta hækka um 676 m.kr. en hækkunin er að mestu leyti vegna leigu á sæstrengjum og aukinnar notkunar áskrifenda Símans erlendis. Á móti lækka afskriftir tímabilsins vegna sölu á sæstrengjum á fyrra ári. Á tímabilinu var greiddur kaupauki til starfsmanna félagsins að fjárhæð 130 m.kr.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 5.728 m.kr. á tímabilinu. Afskriftir félagsins á tímabilinu voru 2.721 m.kr. en námu 3.304 m.kr. á sama tímabili í fyrra og hafa lækkað um tæp 18%. Rekstrarhagnaður tímabilsins (EBIT) hækkar um 37% og nam 3.006 m.kr. samanborið við 2.187 m.kr. fyrir sama tímabil árið áður.