Síminn er með 52,2% markaðshlutdeild á íslenska internetmarkaðinum og bætti við sig um 1.500 nýjum viðskiptavinum á síðasta ári. Internetviðskiptavinir Símans eru nú 56.979 talsins.

Vodafone bætti líka við sig um 2.000 viðskiptavinum á árinu 2010 og er nú með 30,4% markaðshlutdeild. Aðrir sem selja internetþjónustu töpuðu viðskiptavinum á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst og fjarskiptastofnunar um íslenskan fjarskiptamarkað. Samanlagt eru Síminn og Vodafone með 82,6% markaðshlutdeild á internetmarkaði og hafa verið að styrkja stöðu sína á undanförnum árum. Næst á eftir þeim kemur Tal með 12,7% markaðshlutdeild.

Um miðjan síðasta mánuð var greint frá því að til standi að sameina Vodafone og Tal. Sameiginlegt fyrirtæki verður þá með um 43% markaðshlutdeild og sameiginlega mun það og Síminn vera með yfir 95% markaðshlutdeild. Samruninn bíður samþykkis Samkeppniseftirlitsins.