Síminn hefur sent frá sér tilkynningu þar sem því er hafnað að breytt mæling fyrirtækisins á internetnotkun opni á frekari gjaldskrárhækkanir á fjarskiptamarkaði.

Eins og VB.is greindi frá í morgun hefur fjarskiptafyrirtækið Hringdu ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum upp á ótakmarkað gagnamagn með ADSL, frá og með deginum í dag.

Hringdu hefur lýst því yfir að tilhögun Símans, að hefja mælingu á allri internetnotkun, sé slæm fyrir neytendur, að breytingarnar dragi úr gegnsæi og opni á frekari gjaldskrárhækkanir á fjarskiptamarkaði.

Síminn vill leggja áherslu á að breytingin, sem tekur gildi í september, henti 98% af viðskiptavinum Símans og stór hópur viðskiptavina komi til með að geta lækkað reikning sinn. Ástæðan sé sú að pakkarnir sem viðskiptavinum stendur til boða eru stækkaðir verulega og rúmast því notkun þorra viðskiptavina innan þeirra. Þeir viðskiptavinir sem gætu fundið fyrir aukningu í verði eftir breytinguna eru svokallaðir ofur-notendur sem standa undir 25% allrar notkunar á neti Símans.

Þessi nýja mæling er því sanngjörn, eykur gegnsæi á markaði og er viðskiptavinum í hag, segir í tilkynningu frá Símanum.