Síminn hf. hefur verið sýknaður af kröfu Inter Medica ehf. um endurgreiðslu vegna póstþjónustu sem fyrirtækið hafði sagt upp en greiddi engu að síður fyrir.

Fjallað er um málið á vef Morgunblaðsins, en Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Inter Medica hefði sannarlega sagt upp umræddri þjónustu árið 2011. Aftur á móti á fyrirtækið að hafa sýnt tómlæti þegar það greiddi engu að síður fyrir þjónustuna í fjögur ár.

Inter Medica hafði stofnað til viðskiptasambands við Símann árið 2006 og greiddi fyrir þjónustu tengda hýsingu á tölvupósti fyrirtækisins. Í júní 2009 var allur tölvupóstur félagsins fluttur yfir á eigin netþjón, en áfram bárust mánaðarlegir reikningar upp á 21.300 krónur.

Starfsmaður Inter Medica taldi sig þá hafa sagt upp allri þjónustu og ítrekaði í tölvupósti að öll hýsing væri komin yfir á annan netþjón. Síminn hélt þó afram að senda reikningana og Inter Medica hélt áfram að greiða þá.