Síminn og Tetra Ísland ehf. hafa undirritað samkomulag um að Síminn taki að sér rekstur Tetra fjarskiptakerfisins. Traustur rekstur Tetrakerfisins er einkar mikilvægur þar sem Tetra Ísland sér m.a. um að tryggja örugg fjarskipti fyrir viðbragðs- og öryggisaðila, svo sem lögreglu og slökkvilið. Síminn mun leitast við að ná fram hagræðingu í rekstri Tetrakerfisins og bæta þjónustu fyrirtækisins.

Tetra-fjarskiptakerfið er talstöðvarkerfi með símaviðmóti og þjónar sem fyrr segir lögreglu og slökkviliði auk flutnings- og ferðaþjónustuaðilum, orkufyrirtækjum, verktökum og öðrum sem þurfa á sveigjanlegum hópfjarskiptum og skilgreindri öryggisfjarskiptaþjónustu að halda. Stækkun Tetra dreifikerfisins stendur nú yfir og er þjónustusvæði þess einkum miðað við Suð-Vesturland, þ.e. frá Vík í Mýrdal, um Suðurland, Reykjanes, Höfuðborgarsvæðið, Hvalfjörð og Hvalfjarðargöng, Akranes, Mýrar og Borgarfjörð að Holtavörðuheiði.

Ennfremur er rekin afmörkuð þjónusta á Ísafirði vegna Vestfjarðarganga og í Eyjafirði. Tekur Síminn þátt í þessari uppbyggingu sem áætlað er að ljúki innan tveggja mánaða. Síminn mun í framhaldi sinna rekstri tetrakerfisins og þjónustu við viðskiptavini en kemur ekki að eignarhaldi á TetraÍsland ehf. eða beinum fjárfestingum félagsins.