Síminn hefur tekið þá ákvörðun að taka þátt í fyrirtæki, svokallaðri efnisveitu, sem hefur áhugavert sjónvarpsefni fram að færa og dreifa efni þess á fjarskiptaneti sínu á stafrænu formi. Í þeim tilgangi tekur Síminn þátt í kaupum á félagi sem á 100% í enska boltanum og um fjórðungshlut í Íslenska Sjónvarpsfélaginu sem starfrækir Skjá 1.

Í fréttatilkynningu frá Símanum kemur fram að þetta er í samræmi við stefnu Símans þar sem fyrirtækið hefur sent stafrænt efni um Breiðband Símans frá því í nóvember 2002 en þá hóf Síminn dreifingu á rúmlega 40 innlendum og erlendum sjónvarpsrásum. Síminn var því fyrstur til þess að hefja stafrænar útsendingar á sjónvarpsefni á Íslandi.

"Síminn hefur á undanförnum mánuðum verið í viðræðum við allar 3 sjónvarpsstöðvarnar um þátttöku í þróun á stafrænu kerfi fyrir sjónvarp. Í viðræðunum fólst að Síminn sæi um dreifingu á efninu. Íslenska útvarpsfélagið, sem á og rekur Stöð 2, sleit samningaviðræðum við Símann í júní síðastliðnum og hefur ákveðið að byggja upp eigið dreifikerfi fyrir stafrænar sjónvarpsútsendingar í lofti," segir í tilkynningu Símans.

Um þessar mundir er Síminn að undirbúa tilraun með dreifingu á stafrænu sjónvarpi um koparkerfið með DSL tækni. Tilraunin hefst í september en sú aðferð þýðir í raun miklu meiri útbreiðslu á stafrænu sjónvarpi en verið hefur á Íslandi. ADSL kerfið nær til 92% þjóðarinnar eða til yfir 90 þúsund heimila á meðan núverandi sjónvarpsþjónusta Símans, Breiðbandið, nær til 35.000 heimila. Þeir sem tengjast munu stafrænu sjónvarpi yfir ADSL ættu kost á útsendingum á þeim 40 stöðvum sem eru aðgengilegar á Breiðbandinu. Einnig eru í gangi viðræður um dreifingu efnis frá fleiri sjónvarpsstöðvum auk þess sem þróa á ýmsa gagnvirka efnisþjónustu.

Með því að fara í Sjónvarp yfir ADSL er Síminn að auka nýtinguna á fjarskiptakerfum sínum. Örar breytingar í tækni hafa leitt til þess að símafyrirtæki í heiminum veita ekki eingöngu hefðbundna símaþjónustu heldur geta boðið upp á fjölbreytta, gagnvirka afþreyingarmöguleika. Síminn er fyrirtæki sem vill veita viðskiptavinum sínum fjölbreytta þjónustu í framtíðinni, svo sem í formi samskipta, tölvuleikja og sjónvarpsdreifingar segir í fréttatilkynningu Símans.