Samkeppniseftirlitið hefur lagt 440 milljóna króna sekt á Símann vegna brota á samkeppnislögum. Af heildarsektinni eru 390 milljóna króna vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu á farsímamarkaði og 50 milljónir vegna rangra og misvísandi upplýsingagjafar í málinu.

Fram kemur í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu að það hafi haft til rannsóknar kæru Nova vegna verðlagningar Símans á farsímamarkaði. Í ákvörðun, sem er birt í dag komst eftirlitið að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína og þar með brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og 54. gr. EES-samningsins með því að beita keppinauta sína samkeppnishamlandi verðþrýstingi.

Verðþrýstingur fólst í aðalatriðum í því að markaðsráðandi fyrirtæki stjórnaði framlegð á milli heildsölusstigs og smásölustigs í m.a. þeim tilgangi að gera nýjum keppinautum erfiðara fyrir að ná fótfestu á smásölumarkaði. Í slíku tilviki er viðkomandi fyrirtæki markaðsráðandi á heildsölustigi og starfaði einnig á tengdum smásölumarkaði.

Fyrirtækið selur í heildsölu mikilvæga vöru/þjónustu (sem er í þessu máli lúkning símtala í farsímaneti Símans) til annarra fyrirtækja sem nýta hana í starfsemi sinni á smásölumarkaði. Þar eiga fyrirtækin í samkeppni við smásöluhluta hins markaðsráðandi fyrirtækis, í þessu tilviki Símann. Samkeppniseftiriltið segir brotið geta falist í óeðlilega hárri verðlagningu á heildsöluaðfanginu sem gerir rekstur keppinauta á smásölumarkaði óarðbæran eða dregur úr hagnaði þeirra og vinnur þar með gegn því að þeir geti keppt af krafti á smásölumarkaðnum, almenningi til hagsbóta.

Síminn var í einokunaraðstoðu

Þá segir í umfjöllun Samkeppniseftirlitsins um málið að Síminn hafi á árum áður verið í einokunarstöðu í fjarskiptum og sökum m.a. þess hafi fyrirtækið haft í viðskiptum langflesta farsímanotendur. Keppinautar Símans geti ekki starfað á farsímamarkaði nema viðskiptavinir þeirra geti hringt í viðskiptavini Símans. Til þess að það sé unnt þarf t.d. Nova að greiða Símanum fyrir lúkningu símtala sem byrja í kerfi Nova en enda í kerfi Símans. Lúkningargjaldið er þannig hluti af heildsöluverði símtalsins en smásöluverðið er það verð sem Nova innheimtir af sínum viðskiptavinum. Á stærstum hluta brotatímabilsins var þetta heildsöluverð Símans til keppinauta hærra en smásöluverð Símans á símtölum milli viðskiptavina í farsímaþjónustu fyrirtækisins (innankerfissímtöl). Þýddi þetta að hefði smásöludeild Símans þurft að greiða heildsöluhluta Símans sama heildsöluverð og keppinautarnir hefði hún tapað á hverju símtali.

Samkeppniseftirlitið segir því ljóst að keppinautar Símans gátu ekki verðlagt símtöl í farsímanet Símans, með sambærilegum hætti og innankerfissímtöl hjá Símanum án þess að verða fyrir tapi þar sem langflestir notendur voru í viðskiptum hjá Simanum. Þetta hefur m.a. leitt til þess að Nova hefur neyðst til að veita ókeypis símtöl innankerfis í farsímakerfi félagsins til að eiga kost á því að laða til sín viðskiptavini í samkeppni við Símann. Sú stefna hafi ekki verið sjálfbær enda Nova verið rekið með miklu tapi fyrstu starfsár félagsins.

Brot Símans áttu sér stað á árunum 2001 til ársloka 2007 og teljast mjög alvarleg, að mati Samkeppniseftirlitsins. Þá hefur Síminn áður brotið gegn samkeppnislögum og er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins talið hæfilegt að leggja á fyrirtæki sekt að fjárhæð 390 mkr. Er það hæsta sekt sem lögð hefur verið á fyrirtæki hér á landi vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.

Röng og villandi upplýsingagjöf

Rannsókn málsins hófst með erindi Nova á árinu 2008.

Í umfjöllun Samkeppniseftirlitsins segir hins vegar: „Eftir að hafa kallað eftir upplýsingum frá Símanum í málinu birti Samkeppniseftirlitið Símanum andmælaskjal á síðar á árinu 2008 þar sem komist var að því frummati að Síminn hafi undirverðlagt símtöl innankerfis hjá félaginu. Eftir útgáfu andmælaskjalsins lagði Síminn hins vegar fram nýjar kostnaðarupplýsingar sem stönguðust verulega á við þær upplýsingar sem áður höfðu komið fram. Breytti þetta grundvelli málsins og kallaði á nýja rannsókn. Leiddi þetta til þess að Samkeppniseftirlitið sendi Símanum nýtt andmælaskjal á árinu 2010. Röng og villandi upplýsingagjöf Símans hefur því tafið meðferð málsins.“