*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 28. október 2020 09:52

Símanum gert að greiða 111 milljónir

Héraðsdómur hefur dæmt Símann til að greiða Tölvun, Snerpu og Hringiðunni skaðabætur vegna brots á samkeppnislögum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Símann til að greiða 111 milljónir króna í skaðabætur, auk kostnaðar, til Tölvunar, Snerpu og Hringiðjunnar en félögin stefndu Símanum fyrir að hafa valdið þeim tjóni á markaði vegna internetþjónustu á árunum 2005-2007.

Upphaflegar kröfur félaganna voru að Síminn ætti að greiða þeim um 3 milljarða króna en stefnufjárhæðin í málunum nam tæpum milljarði króna. Eins og VIðskiptablaðið sagði frá í gær jók Síminn hagnað sinn um 13% á þriðja ársfjórðungi en fjórðungur allra hlutabréfaviðskipta í kauphöllinni í gær síðasta dag fyrir birtingu uppgjör félagsins voru með bréf félagsins.

Síminn segir í tilkynningu að niðurstaðan muni ekki hafa áhrif á birtar horfur né það sem kom fram á fjárfestakynningu félagsins í morgun en niðurstaða Héraðsdóms lá fyrir eftir að kynningarfundi lauk.

Jafnframt segir Síminn niðurstöðuna vera mikil vonbrigði enda taldi félagið að ekki hefði verið sýnt fram á að háttsemi þess hafi farið gegn lögum. Síminn mun meta forsendur héraðsdóms og hvort áfrýjað verði til Landsréttar.

Ofangreint mál er eitt af þeim sem að félagið stendur í málarekstri vegna, eins og fram kemur í skýringu 15 með árshlutareikningi samstæðu Símans hf. fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2020.