Síminn hefur samið við fjarskiptarisann Ericsson um uppbyggingu 4G kerfis, en auk þess verður hraðinn á 3G kerfi Símans aukinn enn frekar á næstu árum. Í tilkynningu er haft eftir Ann Emilson, framkvæmdastjóra hjá Ericsson, að þetta feli í sér að 3G kerfi Símans verði tvöfalt öflugra en nú og verði gagnahraðinn víða ekki síðri en í 4G kerfinu.

Þar er einnig haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Símans, að hraðinn á 3G nái allt að 42 megabætum á sekúndu þar sem mest verður. Ástæða þess að verið sé að efla 3G kerfið áfram þrátt fyrir tilkomu 4G tækninnar sé að enn sem komið er styðji fá símtæki og tölvur 4G tæknina. Aðeins brot farsíma í fjarskiptakerfinu geri það þessa stundina. Því hafi fyrirtækið viljað bæta þjónustu við viðskiptavinina miðað við búnaðinn sem þeir nota, en ekki þvinga þá til þess að fjárfesta í dýrum tækjum að óþörfu til að halda í við þróunina.