Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir breytingartillögu Símans við evróputilskipun um fjarskiptamarkaðinn sem til stendur að innleiða vera fásinnu. Hún snúist einfaldlega um að Síminn vilji fá endurgjaldslausan aðgang að óvirkjuðu ljósleiðaraneti Gagnaveitu Reykjavíkur – svokölluðum svörtum ljósleiðara – í stað þess að semja við veituna um aðgang eins og önnur fjarskiptafyrirtæki hafi gert. Aðstæður í þeim löndum þar sem verið sé að íhuga slíkan aðgang séu allt aðrar, enda séu umsagnaraðilar á einu máli í andstöðu sinni við tillöguna hér á landi.

Síminn segir hinsvegar alrangt að lagt sé til að aðgangurinn verði eldurgjaldslaus, og að fjarskiptafyrirtækin gætu samnýtt hinn svarta ljósleiðara.

Í tillögunni er sem áður segir lagt til að opnað verði fyrir aðgang að svokölluðum svörtum ljósleiðara: ljósleiðara sem búið er að leggja, en á eftir að virkja. „Gagnaveita Reykjavíkur er búin að leggja eiginlega allan ljósleiðarann á höfuðborgarsvæðinu. Það er búið að kveikja á helmingnum af honum. Síminn, sem á síðan annað ljósleiðarakerfi, vill fá leyfi til að fara inn á þennan helming, sem er ekki búið að kveikja á. Frekar en að þeir leggi nýjan streng eða noti streng Gagnaveitunnar bara í frjálsum samningum, þá ætla þeir að neyða Gagnaveituna til að opna á þennan möguleika, að þeir færi sína viðskiptavini yfir á ljósleiðara Gagnaveitunnar þeim að kostnaðarlausu.

Þá gera þeir það þannig að þeir setja upp sérbox inni hjá viðkomandi. Vegna friðhelgi heimilisins má svo enginn annar fara þar inn og snerta það box. Þeir eru þá búnir að færa strenginn sem Gagnaveitan lagði inn í box sem Síminn á. Þeir ætla að setja allan þennan ónotaða ljósleiðara inn undir sinn búnað, sitt stýrikerfi. Því er svo ekki hægt að breyta nema að frumkvæði viðskiptavinarins.“ segir Heiðar.

„Hvers vegna gera þeir ekki bara sömu samninga og allir aðrir?”
Gagnaveitan setur upp boxin sjálf fyrir sína strengi og selur síðan fjarskiptafélögunum aðgang að þeim. Þau selja síðan internetþjónustu yfir strengi og í gegnum boxin hennar, enda er Gagnaveitan ekki fjarskiptafyrirtæki. Míla – dótturfélag Símans og samkeppnisaðili Gagnaveitunnar – leyfir hins vegar ekki aðgang að sínu kerfi.

Öll fjarskiptafélögin nema Síminn selja því netþjónustu fyrir Gagnaveituna, en Síminn selur aðeins þjónustu í gegnum sitt eigið kerfi. „Þeir hafa ekki viljað gera neina samninga við Gagnaveituna. Fari breytingartillagan í gegn óbreytt býr hún til sparnað í fjárfestingum hjá Símanum upp á 12-14 milljarða. Hvers vegna gera þeir ekki bara sömu samninga við Gagnaveituna og allir aðrir á markaðnum?“ spyr Heiðar, og bætir við að þeir sem enn hafi ekki aðgang að ljósleiðara séu allt viðskiptavinir Símans, sem lítið mál væri að bæta úr ef Síminn semdi einfaldlega við Gagnaveituna um aðgang að ljósleiðarakerfi þeirra eins og önnur fjarskiptafélög.

Framtíðarlausnina í þessu máli – eins og öðrum sem varða kostnaðarsama uppbyggingu innviða – segir Heiðar vera að eitt fyrirtæki, rekið eins og veitufyrirtæki með takmarkaða arðsemi, sjái um innviðina sjálfa og selji svo aðilum í samkeppni hvor við annan aðgang að kerfinu á jafnréttisgrundvelli. Hann tekur HS Veitur sem dæmi, sem er í einkaeigu að miklu leyti, en í samþykktum félagsins kemur fram það markmið að rukka aðeins jafn mikið og veitufyrirtæki gera almennt, fyrir fjármagnið sem er bundið. Míla, GR og Farice myndu þá sameinast í eina gagnaveitu. „Þetta skiptir líka máli upp á uppbyggingu 5G þegar að henni kemur.“

Umsagnaraðilar á einu máli
Heiðar segir það vissulega svo að mörg fjarskiptafyrirtæki, þar með talið Vodafone í Bretlandi, styðji löggjöf sem opnar svartan ljósleiðara, eins og þá sem Síminn leggur til. Aðstæður í þeim löndum séu hins vegar allt aðrar en hér á landi. „Það er ekki verið að tala um það nema í einstaka löndum. Ísland er ljósleiðaravæddasta land í heimi. Bretland er það ekki, og Þýskaland og Ítalía þaðan af síður.“

Heiðar segir að hefði verið tekin ákvörðun um það í upphafi ljósleiðaravæðingarinnar hér fyrir um 15 árum, að fara þá leið sem hann leggur til hér að ofan, hefði það verið hagkvæmari lausn fyrir alla. Nú sé hins vegar búið að byggja kerfið upp, samkeppni milli fjarskiptafélaga sem selja aðgang að ljósleiðara Gagnaveitunnar sé hörð, og verðið því lágt, ásamt því að nánast allir hafi aðgang að háhraða nettengingu. Þörfin fyrir að opna á svartan ljósleiðara sé því einfaldlega ekki til staðar.

Að lokum bendir hann á að svo til allir sérfróðir umsagnaraðilar á þessu sviði – Póst- og fjarskiptastofnun, Samkeppniseftirlitið, Reykjavíkurborg og önnur fjarskiptafélög – séu samhljóma í andstöðu sinni við tillögu Símans.

Nánar er rætt við Heiðar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .