Síminn hf. hefur í dag birt stefnu á hendur Sýn hf. þar sem gerð er krafa um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem Síminn hf. telur sig hafa orðið vegna meintrar ólögmætrar hagnýtingar Sýnar hf. á sjónvarpsefni Símans hf. frá 1. október 2015 til 16. desember 2015.

Krafan er sett fram í tilefni af dómi Hæstaréttar frá 18. október 2017 í máli nr. 329/2017 þar sem staðfest var lögbann sem sýslumaður hafði lagt við því að Sýn hf. tæki upp og miðlaði sjónvarpsefni sjónvarpsstöðva Símans hf.

Í dómsmálinu gerir Síminn hf. nú kröfu um að Sýn hf. verði dæmt til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 555.312.000 kr. og miskabætur að fjárhæð kr. 10.000.000, auk vaxta og dráttarvaxta. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar.

Sýn hf. telur engan grundvöll vera fyrir þeim fjárkröfum sem Síminn hf. hefur sett fram á hendur félaginu að því er segir í fréttatilkynningu. Mun félagið því grípa til varna í dómsmálinu og krefjast sýknu.