Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson, Simmi og Jói, eru ekki lengi eigendur að Stórveldinu. Þeir áttu samtals tæplega 40% eignarhlut í félaginu. „Við vorum sammála um að þetta væri ágætur tímapunktur til að færa félagið aftur í fyrra horf,“ segir Hugi Halldórsson, einn eigenda og stofnandi Stórveldisins. Hugi hefur keypt eignarhlut Simma og Jóa. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Stórveldið átti 15% hlut í Konunglega kvikmyndafélaginu sem kom á laggirnar tveimur sjónvarpsstöðvum um stutt skeið fyrr á þessu ári. 365 miðlar hafa nú keypt félagið eftir að Samkeppniseftirlitið taldi ekki ástæðu til íhlutunar vegna kaupanna.

Sigmar segir að þrátt fyrir að stofnendur Konunglega kvikmyndafélagsins hafi talið sig vera með ríflegt hlutafé í upphafi hafi það reynst vera of lítið til að mæta nauðsynlegum kostnaði. „Við höfðum veðrými til að taka lán til að klára þetta. Það var hinsvegar yfirlýst stefna okkar sem unnum saman að skuldsetja ekki fyrir þeim ævintýrum sem við fórum út í," segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast PDF-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .