*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 4. maí 2018 11:01

Simmi selur hlut sinn í Fabrikkunni

Sigmar Vilhjálmsson hefur selt hluti sína í Hamborgarafabrikunni og Keiluhöllinni Egilshöll.

Ritstjórn
Sigmar Vilhjálmsson, betur þekktur sem Simmi.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Sigmar Vilhjálmsson hefur selt hluti sína í Hamborgarafabrikkunni og Keiluhöllinni Egilshöll. Að því er DV greinir frá er kaupandinn Jóhannes Stefánsson, gjarnan kenndur við Múlakaffi, sem er nú orðinn langstærsti eigandi fyrirtækjanna. Auk þess hefur Snorri Marteinsson, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri Fabrikkunnar selt sinn hlut, einnig til Jóhannesar Stefánssonar.

Sigmar og félagi hans Jóhannes Ásbjörnsson (Simmi og Jói) hafa verið andlit Fabrikkunnar og Keiluhallarinnar Egilshöll frá stofnun staðanna en svo virðist sem Jóhannes Ásbjörnsson muni áfram eiga hlut í staðnum með nafna sínum Jóhannesi Stefánssyni. 

Í frétt DV segir að Sigmar muni þó áfram gegna starfi framkvæmdastjóra Keiluhallarinnar og veitingastaðarins Shake & Pizza út þetta ár. 

Eigendur Hamborgarafabrikkunnar eru því Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway, sem á 25% hlut og Gleðipinnar ehf. sem á og rekur Keiluhöllina sem á 75%. Hluthafar Gleðipinna voru svo aftur þeir Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson sem áttu 26,67% hlut hvor, Jóhannes í Múlakaffi átti 15,83% hlut sem og hjónin Guðmundur Auðunn Auðunsson og Guðríður María Jóhannsdóttir. Loks átti Snorri Marteinsson 5% hlut.