Sagan segir að Sigmar Vilhjálmsson, annar eigenda Hamborgarafabrikkunnar, hafi verið orðaður við stjórnmálaþátttöku og að í honum blundi framsóknarmaður.

Í viðtali við Viðskiptablaðið mótmælir Sigmar því ekki, þ.e. seinni staðhæfingunni, og segist gera ráð fyrir því að kjósa Framsóknarflokkinn í vor. Hann segist þó hafa lítinn áhuga á því að taka þátt í stjórnmálum þó að nokkrir flokkar hafi beðið hann um að taka sæti á lista.

„Ég hef lifað hálfopinberu lífi og veit hvað það þýðir. Mér finnst stjórnmál þó ekki það spennandi að mig langi að blanda mér í þau,“ segir Sigmar.

„Að sama skapi, þó það kunni að hljóma mótsagnakennt, þá finnst mér vanta meira af ungu, hugmyndaríku og duglegu fólki til að taka þátt í stjórnmálum. Ég vona að það komi fram þannig einstaklingar á næstu árum og gefi sig að starfi í stjórnmálum.“

Ítarlegt viðtal er við þá Simma og Jóa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.