Athafnamennirnir Sigmar Vilhjálmsson og Óli Valur Steindórsson hafa fest kaup á matarvagni og hyggjast nota hann til að prufukeyra Hlöllabáta og Barion í vissum úthverfum og bæjarfélögum. Þetta segir Sigmar í samtali við Viðskiptablaðið.

„Hugmyndin er að vera með Hlöllabáta og minni útgáfu af Barion stað í þessum matarvagni. Staðsetning á honum er ekki uppgefin enn þá, það á eftir að merkja hann og setja í hann réttu tækin, þannig að vonandi fyrir mánaðamót liggur það fyrir," segir Sigmar.

Hann segist hafa fundið fyrir mikilli eftirspurn efti Barion úr vissum bæjarfélögum og hverfum. „Það hafa borist miklar beiðnir frá hinum og þessum úthverfum og bæjarfélögum hvort að við hefðum áhuga á því að opna Barion hverfisstaði, við sjáum fyrir okkur að svona matarvagn geti nýst sem ákveðin prufukeyrsla í ákveðnum hverfum áður en endanleg ákvörðun er tekin um að fjárfesta í heilum stað".

Hann er ekki tilbúinn að gefa upp endanlega staðsetningu á vagninum en segist vera með ákveðið hverfi í huga sem óráð væri að upplýsa um.