Norski hugmyndasmiðurinn Stein Simonsen hefur hafið störf hjá framleiðslufyrirtækinu Tjarnargötunni að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Simonsen er margverðlaunaður hugmyndasmiður sem nýlega sagði upp stöðu sinni sem listrænn stjórnandi hjá auglýsingastofunni McCann í Osló til þess að flytja til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni. „Við viljum búa hérna í þó nokkurn tíma til þess að eignast nýja vini, eyða tíma með fjölskyldu og læra nýja hluti,“ segir Simonsen.

„Ég vonast til þess að læra ekki aðeins tungumálið heldur að öðlast nýja innsýn og innblástur sem hjálpar mér að þróast sem hugmyndasmiður. Ég þekkti til nokkura verkefna Tjarnargötunnar og var því himinlifandi þegar þeir buðu mér að vera partur af þeirra teymi.“

Kláraði lögfræði en snerfi frá henni

Bakgrunnur Simonsen er að vissu leyti sérstakur en hann lagði stund á laganám á meðan hann starfaði sem blaðamaður, og hlaut síðan stöðu hjá einni stærstu lögmannsstofu Noregs. Eftir að hafa hlotið lögmannsréttindi tók hann hinsvegar frí frá lögfræðinni til þess kanna möguleika sína í skapandi geiranum og hefur hann ekki litið til baka síðan.

Simonsen varð fljótt einn verðlaunaðasti hugmyndasmiður Noregs. Hann er þekktur fyrir kunnáttu sína í að nýta sér mismunandi miðla og náði hann til dæmis oft að blanda saman auglýsingum og almannatengslum.

Simonsen er eini Norðmaðurinn sem hefur hlotið gullverðlaun á evrópsku auglýsingahátíðinni Eurobest og þá hefur hann einnig hlotið þrenn verðlaun í Cannes í Frakklandi, á svokallaðri Cannes International Festival of Creativity.

Þar hefur hann einnig setið í dómnefnd. Þá hlaut hann norsku STELLA verðlaunin þrisvar fyrir verk sín fyrir norska flugfélagið Widerøe, norsku Vegagerðina og fjármálafyrirtækið Storebrand. Simonsen hefur jafnframt skipulagt tónlistarhátíð í útjaðri Osló ásamt vinum sínum og situr í stjórn Frisk Asker, sem er einn stærsti íshokkí klúbbur Noregs.

Um Tjarnargötuna

Tjarnargatan er framleiðslufyrirtæki sem hefur verið starfrækt frá árinu 2011 og starfa þar 15 manns.

Tjarnargatan hefur skapað sér sérstöðu sem leiðandi aðili í efnis- og sögusköpun á Íslandi. Hjá fyrirtækinu starfa hugmyndasmiðir, leikstjórar, tökumenn, aðilar í allri eftirvinnslu og grafík sem og teymi sem tryggir besta notkun og sýnileika á öllu efni sem skapað er.

Tjarnargatan leitar jafnframt eftir frekari starfsfólki og má sækja um störf hér .