Samkvæmt nýrri löggjöf Evrópusambandsins (ESB) munu verða sett höft á svokölluð reikigjöld (e. roaming) í farsímaþjónustu, sem mun verða til þess að símtöl milli landa innan ESB munu verða að minnsta kosti helmingi ódýrari en áður, segir í frétt Financial Times.

Reikigjöld eru sett á þegar farsímanotandi ferðast út fyrir þjónustusvæði þess aðila sem hann hefur þjónustusamning við og nýtir þjónustu annarra aðila án þess að hafa gert við hann samning. Þessi markaður hefur verið að mestu óafskiptur þar til nú og hafa farsímafyrirtæki nýtt sér það óspart, enda eru reikigjöld talsvert há víðast hvar.

Samkvæmt nýju löggjöfinni er fjarskiptafyrirtækjum óheimilt að leggja meira en 0,49 evrur, fyrir virðisaukaskatt, í reikigjald fyrir hverja mínútu þegar hringt er og 0,24 evrur þegar svarað er. Reikigjöld eru mishá innan sambandsins, en eru yfirleitt að minnsta kosti helmingi hærri en hámark nýju löggjafarinnar. Þessi löggjöf markar nokkra sérstöðu í Evrópusambandinu, þar sem henni var mætt af mikilli mótstöðu ríkisstjórna og hagsmunaaðila, meðal annars Vodafone, en gefið er að henni verður vel tekið af almenningi.

Fjarskiptamálaráðherra sambandsins, Viviane Reding, stóð að baki laganna sem voru kynnt á síðasta ári, en frá árinu 2005 hafði hún varað fjarskiptafyrirtækin við því að gjöldin væru of há og bent þeim á að lækka þau sjálfviljug. Hún segir að reikigjaldamarkaðurinn hafi brugðist þessu ákalli og að Evrópubúar væru neyddir til að greiða allt of há gjöld fyrir símtöl milli landa, sem væru allt að fjórum sinnum hærri en kostar að hringja innanlands.

Hin nýja löggjöf er mikill sigur fyrir neytendur og einnig innri markað fjarskipta, að mati Reading. "Þetta er óhefðbundin íhlutun, enda vandamálið óvenjulegt og hefur sýnt sig að markaðurinn hefur ekki getað leiðrétt það að sjálfsdáðum.

Í Evrópu eru 480 milljónir farsímanotenda og nota yfir hundrað milljónir þeirra reikiþjónustu í dag, en Reding segir að tugir milljóna muni nýta sér reikiþjónustu í kjölfar lagasetningarinnar. Bretland, Frakkland og Spánn voru meðal helstu andstæðinga löggjafarinnar, en þar eru staðsett mörg af stærstu fjarskiptafyrirtækjum sambandsins. Andstæðingar hafa áhyggjur af því að löggjöfin muni hafa íþyngjandi áhrif á þennan sívaxandi iðnað, en fjarskiptafyrirtæki hafa getað sótt rúmlega 700 milljarða króna í reikigjöld á ársgrundvelli fram til þessa.