„Þetta er rétt að byrja hjá okkur en fyrir löngu orðið tímabært. Það eru klárlega tækifæri á þessum markaði,“ segir Helgi Már Gíslason, verkefnastjóri hjá sælgætisgerðinni Góu og KFC. Fyrirtækið hefur landað umboðinu fyrir innflutningi á gosdrykknum Sinalco og salan þegar byrjuð.

Sinalco
Sinalco

Sinalco er einn elsti gosdrykkur í heimi. Hann var fundinn upp í Þýskalandi árið 1902 og hefur hann verið vinsæll um heim allan um áratugaskeið. Í upphafi var gosdrykkurinn seldur sem hollustudrykkur en nafnið Sinalco er stytting á latneska frasanum sine alcohole, þ.e. án alkóhóls.

Drykkurinn er seldur um heim allan og var hér á landi með þekktari gosdrykkjum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Ölgerðin flutti drykkinn inn á sínum tíma. Hann hefur hins vegar verið ófáanlegur í um áratug.

Fyrsti gámurinn af gosdrykknum kom hingað til lands í síðustu viku og fóru fyrstu Sinalco-flöskurnar í hillur verslana 10-11 og nokkrar aðrar smærri verslanir um svipað leyti.

Gamla uppskriftin sérframleidd fyrir Ísland

Góa hefur síðasta árið unnið með Sinalco í Þýskalandi að endurkomu Sinalco hér. Svo vel hefur samvinnan gengið að Sinalcoið er sérframleitt í verksmiðju Sinalco í Þýskalandi eftir gömlu uppskriftinni sem vinsæl var hér um síðustu aldamót. Gosdrykkurinn er hins vegar ekki í gleri eins og á árum áður heldur í hálfs líters plastflöskum.