„Í mínum eigin heimi hef ég þá trú að fólki finnist ég vera léttur, sniðugur, sætur og skemmtilegur, jebbs, og að fólk haldi alls ekki að ég sé íhaldsmaðurinn sem ég í raun og veru er. Og íhaldsmaðurinn brýst fram af krafti um jólin en í tuttugu og eitthvað ár var 24. desember alltaf eins, eins og hann átti að vera,“ segir Sindri Sindrason fjölmiðlamaður.

Hann rifjar upp að hann og systkini hans hafi vaknað á aðfangadagsmorgun og horft á barnaefni, borðað, burstað tennurnar og farið í vinnuna með pabba sem þeim þótti mikið sport. „Á meðan kláraði mamma að þrífa húsið og það hefði alveg verið hægt að ljúga því að mér að jólin myndu bara alls ekki koma nema húsið væri orðið hreint, svo mikil áhersla var lögð á þennan þátt jólanna. Eftir vinnu keyrðum við pabbi út pakkana á meðan mamma sprautaði Ajax um allt milli þess sem hún skipti á rúmunum, þreif alla skápa og sá um að eini rétti jólamaturinn, rjúpan, eldaðist rétt. Um fimmleytið vorum við systkinin orðin hrein og fín og máttum fátt annað en sitja grafkyrr á meðan mamma og pabbi tóku sig til. Klukkan sex var hlustað á messuna, við systkinin fengum að opna hver sinn pakkann, þá var borðað og svo leitað með mikilli ákefð að möndlunni í eftirréttinum. Pabbi las því næst á hvern og einn pakka, konfektið klárað, allir í náttföt, aðeins meira konfekt og svo var farið í háttinn með bók.“

En eitt og annað átti eftir að breytast með árunum og ein jólin féllust Sindri og maki hans á að fara með foreldrum Sindra, systur og mági á skemmtiferðaskip í Karíbahafinu um jól. „Þessi jól hefðu alveg farið framhjá okkur nema fyrir þær sakir að mömmu tókst að sjokkera alla fjölskylduna þegar hún bað okkur, inni á taílenskum veitingastað um borð í skipinu, að lyfta glösum sem í var pina colada og sagði: „Klukkan er sex heima, gleðileg jól elskurnar“. Þarna upplifði ég röng jól, ekki síst vegna þess að allir voru orðnir svolítið kenndir.“

Sindri segir að nokkur jól hafi verið haldin í útlöndum eftir jólastuðið í Karíbahafinu og með árunum hélt hann kannski sjálfur að hann mundi róast í íhaldinu. „En ekki aldeilis. Íhaldsmaðurinn hefur tvíeflst eftir að ég eignaðist mitt eigið barn. Nú er húsið skreytt í byrjun desember, jólatréð meira að segja líka og næstu tuttugu og eitthvað árin mun dóttir okkar upplifa eins jól. ALLTAF… og hennar maður og svo börn verða hjá okkur. Það er á hreinu,“ segir Sindri.

Sindri Sindrason, fjölmiðlamaður, segir lesendum Viðskiptablaðsins nánar frá jólahefðum sínum í jólagjafahandbókinni sem fylgir nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.