„Þetta verður vaxtaberandi lán,“ sagði Sindri Sindrason, stjórnarformaður Eimskipafélagsins [ HFEIM ], um fjármunina sem Björgólfsfeðgar ásamt ónefndum fjárfestum munu reiða fram til þess að Eimskipafélagið geti staðið við lánsfjárábyrgð til breska ferðaheildsalans XL Leisure Group sem nú er gjaldþrota.

Upphæðin getur numið allt að 207 milljónum evra eða tæplega 27 milljörðum króna. Þetta kom fram á afkomufundi Eimskipafélagsins í morgun.

Sindri sagði að lánið yrði víkjandi. Það þýðir að það sé rétthærra en hlutafé en víkur fyrir kröfum annarra lánadrottna Eimskipafélagsins.  Hann nefnir að lánadrottnar geti litið á það sem ígildi eigin fjár.

„Það er ekki búið að útfæra þetta endanlega,“  sagði Sindri um samkomulagið við Björgólfsfeðga.

Hann sagði hugmyndina vera að fjármunirnir renni til félagsins og verði greiddir upp á „einhverjum tímapunkti.“

Sá tími miðast við hvernig félaginu takist að selja frá sér eignir sem ekki tengjast grunnstarfsemi.

Atlas Versacold er í söluferli ásamt öðrum eignum sem Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélagsins, vill ekki nefna eins og sakir standa.

Sindri sagði ljóst að það sé ekki breytiréttur á láninu í hlutafé Eimskipafélagsins því til þess þurfi hluthafasamþykkt. „Það hefur ekki verið samið um breytirétt því það þarf að fara fyrir hluthafafund,“ sagði hann.