Glænýjum og öðruvísi viðburði hefur verið bætt við dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu. Á vefsíðu Hörpu tónlistarhúss segir að í tilefni af tíu ára afmælis sýndarveruleikans og tölvuleiksins EVE Online, sem þróaður hefur verið af íslenska tölvuleikjafyrirtækinu CCP Games, mun Sinfóníuhljómsveitin spila tónlist úr EVE Online þann 24. apríl næstkomandi. Munu tónleikarnir marka þar með byrjun hátíðahaldanna fyrir EVE spilarahátíðina sem fram mun fara í apríl á næsta ári.

Tónskáldið Jón Hallur Haraldsson (einnig þekktur sem RealX) hefur verið hjá CCP síðan árið 2000, og á árunum 2002 til 2009 samdi hann upprunalegu tónlistina fyrir EVE Online. Á vefsíðu Hörpu segir að að öðrum eiginleikum leikjarins ólöstuðum hafi tónlistin í honum ávallt verið ein af sterkustu einkennum hans.

Verður þetta í fyrsta sinn sem þessi tónlist verður flutt af sinfóníuhljómsveit og segir í fréttinni að aldrei sé að vita nema RealX lumi á einhverju nýju meistaraverki í náinni framtíð. Hann er enn virkur meðlimur í tónlistar- og hljóðdeild leikjarins og er þar að auki nýverið farinn að fást við hljóðforritun.

EVE sinfónían samanstendur af tíu frægum lögum úr EVE, s.s. „Stellar Shadows" og „Surplus of Rare Artifacts" , og var það tónskáldið Kristján Guðjónsson sem setti þau upp fyrir sinfóníuhljómsveit.

Hlýða má á lagið Surplus of Rare Artifacts í þessu myndbandi.