Óhætt er að segja að Singles Day eða Dagur einhleypra sé búið að festa sig í sessi sem heimsins stærsti verslunarviðburður.

Verslað var fyrir 25,4 milljarða Bandaríkjadala á kínversku sölusíðunni Alibaba í gær, eða því sem nemur 2.600 milljarða króna. Veltan jókst um 39% milli ára (talið í júan) og sló öll met, en Singles Day er nú fjórum sinnum stærri en Black Friday og Cyber Monday, stærstu verslunardagar ársins í Bandaríkjunum. CNBC greinir frá.

Til að setja umfang veltunnar í samhengi var hún meiri en landsframleiðsla Íslands í fyrra. Markaðsvirði allrar framleiddrar vöru og þjónustu hér á landi nam rúmlega 2.400 milljörðum króna árið 2016.

Singles Day á rætur að rekja til ársins 1993, þegar kínverskir námsmenn við Nanjing háskóla í Kína fögnuðu Degi piparsveina sem mótvægi við Valentínusardaginn. Í stað þess að kaupa gjafir fyrir ástvini keyptu þessir einmana piparsveinar gjöf fyrir sjálfa sig. Þegar konur fóru að taka þátt nokkrum árum síðar varð dagurinn að Degi einhleypra. Dagsetningin 11. nóvember varð fyrir valinu, þar sem dagsetningin – 11.11 – samanstendur af tölunni einn.

Árið 2009 tókst netsölurisanum að breyta deginum í verslunarhátíð, þar sem kaupmenn skrúfa niður verð og bjóða hagstæð tilboð í gegnum Alibaba í einn sólarhring. Dagurinn er því einkum tengdur við Alibaba, en aðrar netverslanir bjóða einnig sérstök tilboð. Singles Day hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár og hefur Alibaba þannig tekist að gera daginn að stærsta verslunardegi ársins.