„Það er blessunarlega búið að vera nógu mikið að gera og stundum er of mikið að gera, þetta kemur í hollum,“ segir Bjarni Þór Sivertsen, eigandi Action Vehicles, sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í alhliða þjónustu er viðkemur bílum fyrir kvikmyndagerð á Íslandi. „Við útvegum bíla, flytjum bíla, geymum bíla og breytum bílum. Því til viðbótar sinnum við áhættuakstri og útfærum áhættuatriði.“

Upphaf rekstursins má reka til föður Bjarna, Sigurbjörn Guðmundsson hefur sinnt bílaflutningum fyrir auglýsingagerð og kvikmyndageirann um árabil. Bjarni kynntist svo bransanum við tökur á stórmyndinni Walter Mitty, sem frumsýnd var árið 2013. „Pabbi dregur minn inn í þennan heim og þjálfar mig upp. Ég sá svo tækifæri í þessu, en það var ákveðið gat í markaðnum þar sem ekki var hægt að fá þessa þjónustu hjá einum aðila af þessari stærðargráðu, markmiðið er að vera „one-stop shop“ þegar kemur að bílum í kvikmyndagerð.“ Hjá fyrirtækinu starfa í dag þrír starfsmenn þeir Bjarni og Sigurbjörn ásamt Þorsteini Hjörleifssyni, en í stærri verkefnum bæta þeir við sig lausamönnum.

Allir þrír eru menntaðir áhættuökumenn frá Stunts Elite Driving School í Bandaríkjunum, en þeir sjá bæði um áhættuakstur, útfærslu áhættuatriða og árekstra ásamt því að sinna akstri fyrir bílauglýsingarnar. „Við erum þeir einu sem sinnum uppsetningu akstursáhættuatriða að atvinnu á Íslandi. Rallýbílstjórar hafa tekið að sér einhver verkefni, en við erum þeir einu á Íslandi sem erum lærðir, tryggðir, gerum þetta af alvöru og reglulega. Við höfum getað togað kostnað niður, þar sem að áður var þessi þjónusta flutt inn að utan. Mörg íslensk handrit sem hafa verið með áhættuatriði en hafa síðan verið skrifuð út vegna kostnaðar. En með komu okkar inn á markaðinn geta menn farið að leika sér meira, fyrir minni pening en áður.“

Lognið á undan storminum

Um samkomutakmarkanirnar vegna Covid, segir Bjarni:  „Ég hef adrei unnið eins mikið og þá, besta ár lífs míns vinnulega séð. Þá vorum við að skjóta Kötlu á Vík sem var algjör snilld því það voru engir túristar og við náðum skotum sem við hefðum aldrei getað náð undir venjulegum kringumstæðum. Skutum bæði við Hjörleifshöfða og Markarfljót þar sem var enginn en vanalega eru þessir staðir fullir af túristum, það var geggjað. Sömuleiðis unnum við að Ófærð 3, sem var mjög stórt verkefni.“

Bjarni tekur eftir því að hækkun endurgreiðslunnar til kvikmyndagerðar hafi mikil og jákvæð áhrif á geirann.  „Það er búið að vera mikið af verkefnum á gula ljósinu. En eftir að hækkun endurgreiðslunnar var samþykkt er mikið af verkefnum að bætast við, næsta árið verður mikið að gera. Núna er bara lognið á undan storminum. Maður heyrir að endurgreiðslumálin standi svolítið í erlendu framleiðendunum og að meira yrði gert ef endurgreiðslan hækkar. Við sjáum til dæmis myndir eins og Northman, sem gerist á Íslandi en er tekin upp á Írlandi.“

Fluttu inn skriðdreka

Stór hluti af verkefnum Action Vehicles er að útvega bíla fyrir alls kyns tökur og bæði geta verkefnin snúist að því að útvega fágæta bíla eða útvega mikinn fjölda, mest hafa þeir útvegað og stýrt 70 bíla flota. „Við höfum flutt inn skriðdreka fyrir myndina Dead Snow og höfum útvegað bæði Rolls Royce og glænýjan Porche 911. Sömuleiðis sáum við um bílana  fyrir Out of Thin Air, sem fjallaði um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, þá vorum við með alla bíla eins og þeir voru í alvörunni. Vorum með réttan bíl í réttum lit, eins bíl og Geirfinnur var á þegar hann týndist, ég var helvíti ánægður með það.“

Því til viðbótar hafa þeir tengsl við innlenda safnara sem nýtist vel þegar verið að gera peródíur, eða myndir sem bundnar eru við tímabil, þá má nefna bæði Berdreymi og Flateyjargátuna. „Ég get svolítið gripið í bílana hjá þessum söfnurum, en þess á milli keyrum við um götur og bönkum upp á hjá fólki sem á gamla bíla og spyrjum hvort við megum ekki leggja þeim í annarri götu næsta dag. Fólk tekur yfirleitt mjög vel í það.“

Fréttin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Áhugasamir geta kynnt sér starfsemi Action Vehicles nánar á vefsíðu fyrirtækisins.