Yfirskattanefnd (YSKN) felldi nýrverið úr gildi úrskurð Skattsins, sem að vísu hét Ríkisskattstjóri á þeim tíma, þess efnis að skattskyldur söluhagnaður hjóna vegna sölu hesthúss skyldi vera 4,5 milljónir króna. Taldi nefndin að málið hefði ekki verið rannsakað nægilega af hálfu Skattsins.

Umrætt hesthús var keypt árið 1991 á 1,5 milljón krónur en þá var það fokhelt. Eigendur þess lögðu í ýmsar framkvæmdir til að það yrði nothæft.

Nýtt hesthús var keypt árið 2017 og hið gamla selt ári síðar. Söluverð var 9 milljónir króna. Í framtali þeirra var gerð grein fyrir sölu þess og hagnaði af sölunni að fjárhæð tæplega 2,8 milljónir króna. Þess var getið að stofnverð væri byggt á minni þar sem gögn um byggingu hesthússins hefðu ekki fundist.

Í úrskurði YSKN var þess getið að hjónin hefðu getað talið að þau gætu nýtt söluhagnað eldra hússins til að færa niður kaupverð hins nýja. Það fengist hins vegar ekki staðið.

Að mati nefndarinnar gat Skatturinn ekki breytt skattframtali hjónanna á grunni þeirra gagna sem lágu fyrir er ákvörðun um það var tekin. Nauðsynlegt hefði verið að gefa þeim kost á að útlista hvert stofnverð hesthússins hefði verið. Þar sem það var ekki gert voru annmarkar á meðferð málsins, breytingarnar felldar úr gildi og málið sent á ný til Skattsins til réttrar meðferðar að þessu sinni.