Rekstur norræna upplýsingatæknifyrirtækisins Sirius IT, dótturfélags Skipta, gekk vel á síðasta ári. Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2008 námu samtals sem samsvarar 10,4 milljörðum íslenskra króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) nam 1.360 milljónum króna og jókst um 56% frá árinu á undan. Hagnaður fyrir skatta nam 862 milljónum króna, en að teknu tilliti til skatta nam hagnaður ársins 612 milljónum króna segir í tilkynningu.

„Við erum mjög ánægð með afkomu fyrirtækisins á síðasta ári, reksturinn gekk mjög vel og afkoman töluvert yfir okkar væntingum og áætlunum í upphafi árs. Í Danmörku gekk reksturinn vel, eins og á síðasta ári, en mest munar um þá hagræðingu og verulegan viðsnúning til hins betra sem hefur orðið í rekstrinum í Noregi og í Svíþjóð,“ segir Hreinn Jakobsson, stjórnarformaður Sirius IT í tilkynningu félagsins.

„Rekstur okkar byggir mikið á langtímasamningum við okkar viðskiptavini og fjárhagskreppan hefur haft lítil áhrif enn sem komið er. Við höfum hins vegar reynt að nýta okkur möguleikaana sem felast í virkri fjárstýringu og greiddum upp hluta af okkar lánum á síðasta ári,“ segir Hreinn.

Í tilkynningu kemur fram að verkefnastaða félagsins er mjög góð og á síðasta ári gerði fyrirtækið marga stóra viðskiptasamninga, bæði við núverandi og nýja viðskiptavini. Meðal viðskiptvina Sirius IT eru margir opinberir aðilar, ríkisstofnanir, sveitarfélög og lífeyrissjóðir. Einnig eru stór einkafyrirtæki aðallega í ýmsum þjónustugreinum, s.s. orkufyrirtæki, fyrirtæki í öryggisþjónustu, tryggingarstarfsemi og fjölmiðlun. Kjarninn í rekstri Sirius IT byggir aðallega á viðhaldi og rekstri stórra upplýsingarkerfa sem oftar en ekki er grunnur í rekstri viðkomandi aðila.