Rekstrarhagnaður norræna upplýsingatæknifyrirtækisins Sirius IT, sem er dótturfélag Skipta, fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) nam 1.618 milljónum króna og jókst um 11% frá árinu á undan. Hagnaður fyrir skatta var 1.387 milljónir króna. Að teknu tilliti til skatta nam hagnaður ársins 1.025 milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skiptum. Rekstrartekjur samstæðunnar námu samtals sem samsvarar 10,6 milljörðum íslenskra króna.

„Við erum mjög ánægð um afkomu fyrirtækisins á síðasta ári og var hún töluvert umfram áætlanir. Í Danmörku og Noregi gekk reksturinn vel, eins og á síðasta ári, en mestu munar um verulegan viðsnúning til hins betra í Svíþjóð. Verkefnastaða félagsins var mjög góð og á síðasta ári gerði fyrirtækið marga stóra viðskiptasamninga bæði við núverandi og einnig nýja viðskiptavini”, er haft eftir Hreini Jakobssyni, stjórnarformanni Sirius IT, í fréttatilkynningunni.

Hagræðing síðustu ára kom til góða

„Þrátt fyrir samdrátt á flestum sviðum í Skandinaviu þá náðum við að hagræða og búa okkur vel undir hugsanlegan samdrátt. Við merkjum hann helst af aukinni samkeppni, aðallega eru það fyrirtæki sem hafa verið að sinna einkafyrirtækjum sem nú sækja meira í opinbera hlutann. Hagræðing síðustu ára, lítil yfirbygging og mikil skilvirkni komu okkur til góða. Við sjáum ekki bara samdrátt og kreppu, heldur felast í aðstæðunum veruleg tækifæri fyrir sterk fyrirtæki að efla sig enn frekar. Við förum hins vegar að engu óðslega, heldur reynum að vinna okkar heimavinnu markvisst í að byggja fyrirtækið upp“, er haft eftir Hreini.

Sirius IT er norrænt upplýsingatæknifyrirtæki með starfsemi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Rekstur Sirius IT byggir á að veita þjónustu við rekstur og viðhald stórra upplýsingarkerfa, auk ráðgjafar við kerfishönnun, kerfisgreiningu, þróun, innleiðingu og margþætta þjónustu.