Samband íslenskra samvinnufélaga, SÍS, lifir enn góðu lífi sem félagslegur vettvangur kaupfélaga landsins þótt félagið hafi farið á hliðina fyrir um 20 árum. Félagið er 110 ára um þessar mundur og er aðalfundur hjá því á Hótel KEA á Akureyri í dag.

SÍS var ein stærsta viðskiptablokk landsins á sínum tíma og með ítök á flestum sviðum viðskiptalífsins frá 1902 til 1992 þegar starfsemi þess var orðin nánast engin vegna skuldaklafa.

Guðsteinn Einarsson, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Borgfirðinga og stjórnarformaður SÍS, rifjar upp í samtali við Morgunblaðið í dag að SÍS hafi ekki farið í þrot heldur greitt 98% af skuldum sínum. Hann telur að ef bankarnir og önnur stórfyrirtæki landsins hefðu hegðað sér eins og SÍS gerði á sínum tíma þá hefði landið sloppið vel út úr efnahagsþrengingunum.

Guðsteinn segir jafnframt að samvinnuhreyfingin hafi verið í miklum ham í Evrópu eftir hrunið og telur hann að fara eigi út í kynningu á hugmyndafræðilegum þætti samvinnuhugsjónarinnar. Ekki eru hins vegar hugmyndir uppi um að endurreisa SÍS.

Hús Sambands íslenskra samvinnufélaga.
Hús Sambands íslenskra samvinnufélaga.