Jan Petter Courvoisier Sissener hefur verið skipaður framkvæmdastjóri hlutabréfaviðskipta hjá Kaupþingi banka (e. Global Head of Equities), en Jan Petter starfar nú sem framkvæmdastjóri Kaupþings í Noregi. Staðan er ný og Jan Petter tekur við henni þegar í stað. Jan Petter mun jafnframt halda áfram að stýra rekstri Kaupþings í Noregi.

Skipunin er liður í frekari samræmingu innan samstæðunnar á miðlun og öðrum viðskiptum með hlutabréf og er markmið hennar einnig að bæta enn þjónustu við viðskiptavini bankans.

Jan Petter hefur yfir tuttugu og fimm ára reynslu á norrænum/evrópskum hlutabréfamörkuðum og hefur tekið þátt í vel heppnaðri uppbyggingu nokkurra öflugustu fjárfestingarbanka á Norðurlöndum. Áður en hann gekk til liðs við Kaupþing var hann yfirmaður norrænnar hlutabréfamiðlunar hjá Alfred Berg/ABN AMRO.