Kanadíski farsímaframleiðandinn BlackBerry segir ekki útilokað að tap fyrirtækisins muni nema einum milljarði dala, jafnvirði næstum 130 milljarða króna, á öðrum ársfjórðungi. Tapið skrifast að stórum hluta af afskriftum á gömlum og óseldum BlackBerry-símum auk þess sem fyrirtækið hefur þurft að punga út háum fjárhæðum til íhlutaframleiðenda og birgja til að koma í veg fyrir að þeir bæti á hauginn, að sögn The New York Times af málinu.

Uppgjör BlackBerry , sem áður hét Research in Motion, verður birt í næstu viku.

Mjög hefur hallað undir fæti hjá BlackBerry síðustu misserin og er staða fyrirtækisins orðin það slæm að í síðustu viku voru boðaðar umfangsmiklar uppsagnir til að koma rekstrinum á réttan kjöl. Hvorki fleiri né færri en 4.500 starfsmönnum verður sagt upp á næstu mánuðum. Það jafngildir 40% af öllum starfsmönnum BlackBerry.